Jeremy Clarkson, umsjónarmaður bílaþáttarins Top Gear, segist „miður sín“ að það hafi litið út fyrir að hann hefði notað niðrandi orð um blökkumenn er hann var að taka upp einn þátt í þáttaröðinni fyrir tveimur árum. Þátturinn er sýndur á BBC en nýverið var birt myndsbrot á netinu þar sem svo virðist sem Clarkson noti orðið „negri“ (e. nigger) er hann fór með vögguvísu. Myndbrotið var aldrei notað í þættinum.
Clarkson hefur nú birt myndskeið á Twitter þar sem hann svarar fyrir sig. Hann segist hafa vandað sig við að nota ekki orðið sem honum er gefið að sök að hafa sagt en geri sér grein fyrir að það gæti hafa misheyrst.
Clarkson var að fara með vísuna Ugla sat á kvisti (Eeny, Meeny, Miny Moe) og segist hafa tautað orðið „kennari“ (e. teacher) í stað hins niðrandi orðs sem oft var notað í vísunni í gamla daga.
Hann segist hafa séð upptökuna nokkrum vikum síðar. Hann viðurkennir að sé lagt við hlustir sé eins og hann sé í raun að segja orðið sem hann var að reyna að forðast að segja.
„Ég var skelfingu lostinn vegna þessa, miður mín. Þetta er orð sem ég fyrirlít.“
Hann segist hafa beðið um að upptakan yrði ekki notuð í þættinum. Á Twitter sagði Clarkson: „Gerið það, verið viss um að ég gerði allt sem ég gat til að nota ekki þetta orð.“ Hann segist hins vegar gera sér grein fyrir að það heyrist sem hann sé að gera það.
Félagi Clarksons í Top Gear, James May, kom honum til varnar á Twitter. „Jeremy Clarkson er ekki rasisti.“
Upptakan sem aldrei var notuð:
Afsökunarbeiðni Clarksons: