Meðal fjölda keppenda í torfæruhjólakeppninni á Klaustri um síðastliðna helgi var goðsögn úr heimi motocrossins, Pierre nokkur Karsmaker.
Hann lauk keppni í þriðja sæti í öldungaflokki sem kallaður er 100 plús flokkurinn, en það stendur fyrir samanlagðan aldur tveggja keppenda. Pierre er reyndar gott betur en fimmtugur því að hann er 68 ára gamall. Keppti hann á móti Guðna Friðgeirssyni og komu þeir á eftir þeim Torfa Hjálmarssyni og Heimi Barðasyni sem urðu fyrstir og Einari Sverrissyni og Kjartani Kjartanssyni sem urðu í öðru sæti.
Fyrir 40 árum varð Pierre Karsmaker supercross-meistari í USA og hefur enginn unnið með eins miklum mun og hann í sögu supercross. Pierre hefur keppt í mörgun frægum keppnum eins og París-Dakar þar sem hann keppti ellefu sinnum, bæði á bíl og hjóli. Keppti hann þar síðast þegar hann var 65 ára og mun hann vera sá elsti sem keppt hefur í Dakar-rallinu á mótorhjóli. Það segir nokkuð um aldur Karsmakers að hann keppti fyrst í motocross-keppni árið 1964 í Hollandi þar sem hann er fæddur. Hann tók þátt í mörgum motocross-keppnum í Belgíu seint á sjöunda áratugnum þar sem að keppnisgreinin sleit barnsskónum. Árið 1973 hafði Yamaha USA samband við hann og réð hann til að keppa fyrir sig í Bandaríkjunum. Þar vann hann fjölda keppna fyrir Yamaha og varð meistari í opnum flokki 500 rsm mótorhjóla. Árið 1975 skipti hann yfir til Honda og vann fyrstu Grand Prix-keppnina fyrir Honda-merkið í Kanada á „Rauða djöflinum“ sem var Honda RC500. Pierre hætti keppni í motocrossi árið 1979 en vildi samt vinna einn titil í viðbót, í nýja fjórgengisflokknum. Hann gerði nákvæmlega það á Yamaha 680 árið 1980. Fyrsta París-Dakar-keppnin sem hann tók þátt í var árið 1987 með bróður sínum, Toon Karsmaker. Urðu þeir tíundu á Honda-mótorhjólum. Árið 2000 tók hann þátt ásamt syni sínum Jirky Karsmaker og varð Pierre þrettándi, þá 53 ára gamall. Sonur hans varð í 25. sæti sem þótti gott fyrir sína fyrstu keppni. Síðasta Dakar-rall sem hann tók þátt í var árið 2009 á BMW-mótorhjóli. Þá þurfti hann að hætta keppni á fimmta degi vegna vélarbilunar.
njall@mbl.is