Frækinn ökuþór með röð stórsigra að baki

Í hugum flestra er rauði litur Ferrari-liðsins nátengdur Schumacher. Þegar …
Í hugum flestra er rauði litur Ferrari-liðsins nátengdur Schumacher. Þegar hann gékk til liðs við Formúlu-1 lið ítalska bilaframleiðandans hófst þar mikið blómaskeið og Schumacher vann hvenr sigurinn á fætur öðrum. Þýski „Regnkóngurin“ í essinu sínu á blautri braut. mbl.is/afp

Þær ánægjulegu fréttir bárust á mánudag að Michael Schumacher, kappaksturshetjan mikla, væri vaknaður úr dái og hefði verið fluttur frá spítalanum í Grenoble í Frakklandi þar sem hann hafði verið undir læknishöndum. Ferill Schumachers er engum líkur.

Eins og lesendur muna slasaðist Michael Schumacher alvarlega á höfði þegar hann féll á skíðum þar sem hann var á ferðalagi í skíðabænum Méribel í frönsku Ölpunum, seint í desember. Skíðaði Schumacher utan hins afmarkaða skíðasvæðis, féll og lenti með höfuðið á grjóthnullungi.

Læknar í Grenoble héldu Schumacher í dái um langt skeið til að draga úr bólgu í heilanum. Þá voru einnig, að sögn Huffington Post, gerðar aðgerðir til að reyna að fjarlægja blóðtappa, en sumir tapparnir höfðu myndast svo djúpt í heilavefnum að ekki var hægt að komast að þeim með góðu móti.

Þess virðist hafa verið vandlega gætt að ljóstra engu upp um hvar ökuþórinn dvelst nú en ljóst er að fram undan er löng og ströng endurhæfing. Eins hefur lítið sem ekkert verið gefið upp um líðan hans og ástand.

Rétt er að staldra við, nú þegar Formúlu-ökuþórinn er á batavegi, og líta yfir stórglæsilegan feril Schumachers. Á flesta mælikvarða má kalla hann mesta ökuþór allra tíma, en aksturshæfileikar hans lönduðu Schumacher sigri í 91 kappakstri og sjö heimsmeistaratitlum í Formúlu-1 keppninni, sem er met. Hætti Schumacher keppni árið 2012, þá 43 ára gamall.

Á körtu fjögurra ára

Schumacher kom í heiminn í bænum Hürth sem liggur upp að borginni Köln í vesturhluta Þýskalands. Var Schumacher aðeins fjögurra ára gamall þegar faðir hans setti litla mótorhjólavél á fótstiginn bíl, sem ungi ökuþórinn klessukeyrði fljótlega á ljósastaur. Í framhaldinu gekk Michael til liðs við go-kart félag, yngsti meðlimurinn í sögu klúbbsins í Keren-Horrem. Sex ára gamall vann Schumacher sína fyrstu innanhússkeppni hjá klúbbnum.

Áfram hélt Michael litli að raka til sín gullverðlaunum í körtukeppni út í gegnum táningsárin. Árið 1989 fór hann á samning hjá Formúlu-3 liði Willi Weber og vann þýska Formúlu-3 titilinn ári síðar, sem og Macau Grand Prix keppnina. Árið 1990 gekk Schumacher, að ráði Webers, til liðs við sportbílakepnislið Mercedes, frekar en að færa sig yfir í Formúlu-3000.

Árið 1991 er Schumacher kominn í Formúlu-1, með Jordan-Ford liðinu og fljótlega þar á eftir til Benetton-Ford. Árið 1992 nær hann sínum fyrsta Formúlu-1 sigri á Spa-brautinni í Belgíu, í rigningarveðri.

Fyrsti heimsmeistaratitillinn kom árið 1994 eftir keppnisár sem einkenndist af deilum um brot á tæknireglum keppninnar. Var Schumacher m.a.s. settur í tveggja keppna bann eftir atvik í kappakstri í Bretlandi.

Draumaárin hjá Ferrari

Frá 1996 til 2006 átti Schumacher heima hjá liði Ferrari, sem þá hafði átt löku gengi að fagna og var eftirbátur keppnisliða á borð við Benetton og Williams. Við tók mikið blómaskeið þar sem Schumacher og Finninn Mika Häkkinen hjá McLaren bitust um heimsmeistaratitilinn ár eftir ár. Árið 2003 hafði Schumacher jafnað fyrra met Juan Manuel Fangio með fimm heimsmeistaratitlum.

Árið 2007 hættir Schumacher keppni og tekur að sér ráðgjafahlutverk hjá Ferrari, en árið 2010 er hann óvænt kominn bak við stýrið hjá Mercedes.

Nú var árangurinn öllu lakari en áður og það var ekki fyrr en 2012 að Schumacher komst á pall, þegar hann landaði þriðja sæti í evrópsku Grand Prix-keppninni. Í síðustu ökukeppni sinni, brasilísku Grand Prix 2012, varð Schumacher sjöundi. ai@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: