Schumacher talaði um dá 1994

Michael Schumacher
Michael Schumacher DIEGO AZUBEL

Ökuþórinn Michael Schumacher vaknaði úr dái í vikunni, í fyrsta sinn frá því að hann lenti í skíðaslysi í desember í fyrra. Fréttir herma að Schumacher geti tjáð sig og að hann hafi kinkað kolli í sjúkrabíl á leið í endurhæfingu.

Schumacher, sem á að baki langan og glæstan feril í akstursíþróttum, sést í myndbandinu hér fyrir neðan tala um slysið sem dró Ayrton Senna til dauða. Fyrst eftir slysið var Senna í dái en hann lést vegna meiðsla nokkrum klukkutímum síðar.

Slysið varð 1. maí 1994 en seinna á því ári segir Schumacher: „Og jafnvel eftir kappaksturinn, þegar við vorum búnir, þá fórum við upp að verðlaunapallinum og Pasquale kom og sagði: „Já, hann er í dái.“

En við, ég meina, ég hafði heyrt um dá og maður veit aldrei. Að vera í dái getur þýtt svo margt. Það getur þýtt að það verði í lagi með mann daginn eftir eða það getur þýtt eitthvað mjög slæmt. En maður sker ekki úr um það því maður trúir því ekki að eitthvað alvarlegt hafi gerst.“

mbl.is

Bloggað um fréttina