Þegar bræðurnir á Hraunteigi við Höfðabakkabrúna fara í sunnudagsbíltúr er engu líkara en verið sé að aka með þjóðhöfðingja, svo glæsilegur og glerfínn er bílaflotinn.
Síðastliðinn sunnudag fóru þeir á þremur bílum, Ársæll Árnason ók Hudson af árgerð 1947, Jóhann Árnason fór á sínum Packard frá 1958. Fremstur í för var sonur Ársæls, Árni Páll, sem ók Amphicar, yngsta bílnum af þessum þremur sem þó er ekki alveg nýr, heldur frá árinu 1963. Þessum óvenjulegu og fögru fákum var ekið upp að Hafravatni þar sem einn þeirra fór út í vatnið. Það var þó ekki slys heldur einmitt það sem gera má á Amphicar sem hannaður var til ferðalaga bæði á láði og legi.
Bílarnir þrír sem notaðir voru í þessum sunnudagsbíltúr eru hver öðrum glæsilegri og bæði erfitt og ósanngjarnt að ætla að gera upp á milli þeirra. Þó er það nú svo að Amphicar er einkar sjaldgæfur og sá eini sinnar tegundar hér á landi.
„Þetta er sá eini sem ég hef haldið í öll þessi ár,“ segir eigandinn, Jóhann Árnason, sem eignaðist bílinn árið 1967 og hefur hugsað vel um hann allar götur síðan.
Alls voru framleidd innan við 4.000 eintök af þessum vatnabíl, eins og rétt er að kalla hann á íslensku en á ensku er talað um slíka bíla sem „amphibious automobile“ eins og tegundarheitið gefur til kynna. Það er mat sérfróðra um vatnabíla að þessi tiltekna tegund sé sú sem best hefur tekist til með og eru þau eintök sem eftir eru í heiminum eftirsótt. Því er sennilega eins farið með þennan bíl og aðra sem bræðurnir Ársæll og Jóhann eiga að ekki þýðir fyrir safnara að falast eftir þeim því bræðurnir eru að nota þá og bílarnir ekki til sölu!
Amphicar var framleiddur á árunum 1961 til 1968 hjá Quandt Group. Hönnuðurinn hét Hanns Trippel og var hugmyndin að baki framleiðslunni sú að ná til Bandaríkjamarkaðar. Í Amphicar er fjögurra strokka 1.137 rúmsentímetra vél og nær hann ljómandi góðri siglingu, eins og blaðamaður fékk sjálfur að reyna á Hafravatninu. Sé Amphicar vel við haldið lekur hann lítið sem ekkert og í upplýsingum frá framleiðanda var þess getið að í hlutverki báts ætti Amphicar að þola að vera bundinn við bryggju í nokkra daga án þess að hafa þyrfti áhyggur af leka.
Jóhann þekkir bílinn vel eftir að hafa átt hann í tæp fimmtíu ár. Hann hefur oft sett bílinn á flot, bæði á sjó og vötnum. Oftar en ekki rekur fólk upp stór augu við það að sjá bíl aka út í vatn og eins og bræðurnir minnast stundum á hrópaði kona nokkur forviða upp yfir sig þegar hún sá bílinn á floti: „Hver kenndi bílnum eiginlega að synda?“ Syndur er hann og vel það en samt sem áður hafa nokkur atvik komið upp sem eru minnisstæð að sögn Jóhanns, eins og til dæmis þegar hann var staddur ásamt farþega úti á miðju Þingvallavatni að veiða á bílnum og skrúfurnar stöðvuðust. Farþeganum var ekki skemmt og þótt allt hafi farið vel að lokum neitaði hann að fara aftur með.
Þeir bræður eru hættir að fara á bátnum á sjó því saltið fer ekki vel með bílinn, en þeir gerðu töluvert af því hér áður fyrr. „Maður var innan um trillurnar á sjómannadaginn hér áður fyrr og fór oft á bílnum í sjóinn. Til dæmis man ég eftir að hafa farið á milli 1970 og 1980 og skoðað tvö skemmtiferðaskip sem voru í höfninni í Reykjavík. Þá sigldi ég bara á milli þeirra á bílnum mínum og skoðaði. Það eru eflaust til einhverjar myndir af mér úti í heimi sem einhverjir farþegar hafa tekið en þeir urðu mjög hissa,“ segir Jóhann.
Einu sinni „strandaði“ bíllinn og varð Jóhannesi ekki um sel þegar hann stöðvaðist skyndilega á eins konar hrygg sem maraði í kafi. Kalla þurfti til jeppa til að kippa í vatnabílinn sem var ekki mjög langt frá landi og allt fór þetta vel að lokum.
Þeir eru ekki margir hér á landi sem ekið hafa vatnabíl en það er góð og skemmtileg reynsla. Fyrst ber að hafa í huga að aka rólega út í vatnið og gæta þess að ekki séu stórir hnullungar fyrir því þrátt fyrir að um ótrúlegan bíl sé að ræða þá er þetta ekki jeppi heldur fjögurra strokka afturhjóladrifinn vatnabíll. Um leið og bílstjórinn finnur að hjólin missa jarðtenginguna og bíllinn byrjar að vagga eins og korkur á vatninu er sett í hlutlausan og skrúfurnar settar af stað. Bensínfetillinn er eftir sem áður ábyrgur fyrir fartinni þótt ekki þurfi að hugsa um gírskiptingu. Svona blússar maður um eins og á spíttbát, allt þar til skynsemin eða samferðamaður segir manni að nóg sé komið og þá er siglt að landi. Um leið og hjólin finna botninn er sett í gír og ekið í rólegheitum upp á land, sett í handbremsu, skrúfurnar stöðvaðar og litið með stolti yfir vatnið þaðan sem maður kom. Svona er að aka vatnabíl!
Á meðal þeirra sem átt hafa vatnabíl af gerðinni Amphicar eru ekki ómerkari menn en til dæmis Lyndon B. Johnson Bandaríkjaforseti sem þekktur var fyrir hrekki og þokkalegt skopskyn. Sagan segir að nærstöddum hafi brugðið í brún þegar Johnson kom akandi í Amphicar á mikilli ferð að vatninu á landareign Johnson City í Texas hrópandi að bremsurnar hefðu gefið sig og brunaði svo út í á vatnabílnum. Það er því ljóst að á vatnabíl má endalaust koma fólki á óvart og leikur enginn vafi á því að þarna tókst vel til hvað framleiðslu á nýstárlegum bíl varðar. Hann er enn nýstárlegur þótt gamall sé.
malin@mbl.is