Vantrúaðir á sjálfakandi bíla

Hægt er að nota tímann í sjálfakandi bíl til annarra …
Hægt er að nota tímann í sjálfakandi bíl til annarra verka en keyra hann.

Bretar eru vantrúaðir á að sjálfakandi bílar eigi mikla framtíð fyrir sér þar í landi. Fjórðungur þeirra segist ekki myndu hafa mikla öryggistilfinningu í slíkum bíl.

Þess er skammt að bíða að sjálfakandi bílar verði löglegir á götum Bretlands. Verður það þó bundið við þrjú afmörkuð en ótilgreind borgarsvæði landsins.

Í könnun sem gerð var fyrir tryggingafélagið Churchill Car Insurance kemur fram, að 56% Breta segist ekki myndu kaupa sér sjálfakandi bíl. Aðeins 25% sögðust geta hugsað sér bílkaup af þessu tagi.

Alls sögðust 60% óttast að bílar af þessu tagi gætu bilað og að tölvubúnaður þeirra yrði óáreiðanlegur. Rúmur helmingur sagðist heldur ekki treysta á bíl sem mannshöndin stjórnaði í engu og þriðjungur kvaðst óttast tölvuöryggi bílanna og huganleg innbrot tölvuþrjóta í stýrikerfi þeirra.

Aðeins 8% aðspurðra sögðust engar áhyggjur hafa vegna sjálfsakandi bíla. Loks sagðist sjöundi hver þátttakandi í könnuninni geta hugsað sér sjálfakandi bíl þar sem þeim leiddist að keyra bíl.



 

mbl.is