Flugfélagið Emirates tók nýlega á móti nýrri Airbus A380-þotu. Alls hafa ellefu flugfélög slík loftför í flota sínum, en A380 er stærsta farþegaþota í heimi. Ekkert hinna félaganna kemst þó í hálfkvisti við Emirates, en nýjasta þotan er sú fimmtugasta af þessari gerð sem flugfélagið tekur í notkun.
Til að fagna tímamótunum gerðu Airbus og Emirates meðfylgjandi myndband um samsetningu vélarinnar. Eins og gefur að skilja er það ekkert smáverk að raða saman slíku flikki, en það tekur 800 starfsmenn 65 til 80 daga að klára hverja vél.
Nýja þotan er af tegundinni A380-800, sem er uppfærð útgáfa af upprunalegu vélinni.
Emirates hefur pantað 90 þotur til viðbótar, sömu gerðar, svo varla er langt að bíða myndbands af tilefni afhendingar 100. vélarinnar.