Áhuginn byrjaði á fæðingardeildinni

Gunnar Karl í ökumannssætinu og Elsa Kristín Sigurðardóttir aðstoðarökumaður á …
Gunnar Karl í ökumannssætinu og Elsa Kristín Sigurðardóttir aðstoðarökumaður á flugi á Evo 5 í Suðurnesjaralli í júní 2014. mbl.is/Malín Brand

Hinn átján ára gamli Gunnar Karl Jóhannesson segir að ralláhuginn hafi án efa tekið sér bólfestu í honum strax á fæðingardeildinni.

Í það minnsta man hann ekki eftir sér öðruvísi en með óstjórnlega dellu og ekki hefur fjölskyldan, sem er meira og minna í akstursíþróttum, latt drenginn. Nú er Gunnar Karl kominn til Bretlands þar sem hann mun keppa í sínu fyrsta ralli á erlendri grundu um næstu helgi.

Snemma á mánudagsmorgni, þegar blaðamaður nær tali af Gunnari Karli, er hann önnum kafinn við að skoða leiðarnótur en það eru lýsingar á því hvernig aka skuli leiðir í ralli. Kannski óvenjuleg iðja hjá ungum manni á mánudagsmorgni, en ekki svo galið þar sem hann er að fara að keppa í Wyedean-rallinu um næstu helgi og þá er eins gott að vera eins kunnugur leiðinni og mögulegt er. Það verður ekki hjá því komist að spyrja Gunnar Karl hvenær áhugi hans á ralli hafi byrjað.

„Áhuginn byrjaði nú örugglega bara á fæðingardeildinni því ég hef alltaf verið með hana,“ segir Gunnar Karl. Sem lítill strákur var hann mikið í kringum föður sinn, Jóhannes Gunnarsson, og félaga hans sem voru á kafi í sportinu. Ófáar ljósmyndir eru til af Gunnari Karli, litlum patta, sitjandi í rallbílnum að „þykjast“ vera með. Þó eru enn fleiri myndir til af honum í keppni, enda hefur hann verið virkur keppandi í akstursíþróttum hér heima frá því hann var fimmtán ára gamall. Hann náði prýðilegum árangri sem ökumaður í Unglingaflokki í rallýcross en þar þurfa keppendur að hafa náð fimmtán ára aldri.

Áhugi sem hvergi dvínar

Frá því Gunnar Karl varð sautján ára hefur hann keppt í rallinu og náð góðum árangri og nú er það Bretland. Það eru þrjár vikur síðan Gunnar Karl kom til Bretlands og framundan eru fjögur röll sem hann ætlar sér að taka þátt í áður en hann kemur til Íslands til að keppa á Íslandsmótinu.

„Ég hef verið í Hull og unnið á verkstæði hjá Ólafi Baldurssyni bifvélavirkja. Ég er honum innan handa en er meira í því sem þarf ekki margra ára reynslu í, eins og til dæmis að sópa gólfin,“ segir Gunnar Karl.

Bíllinn sem Gunnar Karl keppir á ere er Mitsubishi Lancer Evolution X, sami bíll og rallkappinn Daníel Sigurðsson keppti á í Bretlandi á sínum tíma en Graham Quick smíðaði hann. Bíllinn hefur skipt um eigendur og er óðum að taka á sig mynd eftir að hafa staðið óhreyfður í nokkurn tíma. Gunnar Karl hefur keppt á Evo 5 og Evo 6 fram að þessu en nú er það „tían“ sem er að sögn kunnugra býsna góð. „Hún er lögleg í allar keppnir úti og er FIA-skráð. Aðalmálið í þessum bíl er togið en það eru 700 newton-metrar í tog.“

Síðan Gunnar Karl kom út hafa þeir félagar á verkstæðinu skoðað túrbínuna í bílnum og gengið úr skugga um að allt sé eins og það á að vera auk þess sem ýmsum smærri hlutum hefur verið skipt út. Nýjar hlífar eru komnar undir bílinn, nýjar merkingar og svo framvegis. Bíllinn er svo gott sem klár í slaginn og Gunnar Karl er klár. Ef eitthvað er hefur áhugi hans á rallinu magnast og var hann nú mikill fyrir.

Í fyrrasumar var Gunnar Karl með erlendan aðstoðarökumann hluta sumars og hefur því dálitla reynslu af að hlýða á leiðbeiningar á ensku við aksturinn og segist hann kunna því vel. Bretinn George Gwynn verður aðstoðarökumaður hans í keppninni um næstu helgi í Wyedean Forest Rally í Wales.

„Gwynn er mjög vanur og hefur keppt með pabba mínum hér í Bretlandi,“ segir Gunnar Karl. Alls eru 180 bílar skráðir til keppni um næstu helgi og eru það töluvert fleiri en í keppni hér á landi. Fyrir vikið geta ökumaður og aðstoðarökumaður, eðli málsins samkvæmt, ekki ekið eftir leiðunum daginn fyrir keppni og gert leiðarnótur heldur fengu keppendur mynddisk með leiðarlýsingunni á sunnudaginn.

„Ég er búinn að vera að skoða þetta sjálfur heima og verð alla vega ekki bílveikur á meðan! Ég verð oftast bílveikur þegar ég er að fara fram og til baka fyrir keppni heima. Núna get ég bara horft á þetta og spilað þetta hratt þannig að þetta er bara flott,“ segir Gunnar Karl sem er slakur fyrir keppni eins og hann er iðulega.

Bannað að klessa á tré

Í keppninni um helgina verður lengsta keppnisleiðin um 10 mílur. „Það er svona eins og hálft Djúpavatnið. Alls eru þetta átta leiðir og ég er orðinn spenntur fyrir að keyra.“ Þar sem rallið fer fram í Wyedean Forest má vissulega búast við óhefðbundnu landslagi fyrir Íslendinginn því tré eru nú sjaldnast að þvælast fyrir okkur í rallinu hér á landi.

„Þannig að aðalmálið er að lenda ekki á tré eins og pabbi gerði í Bretlandi um árið. Það er númer eitt, tvö og þrjú. “ segir rallökumaðurinn Gunnar Karl Jóhannesson um rallið sem fram fer í Wales um næstu helgi.

Rallið í velska skóginum

Keppt hefur verið í ralli í Forest of Dean í Gloucesterskíri síðan árið 1975. Í ár eru því fjörutíu ár síðan rall fór þar fyrst fram. Á síðunni www.wyedeanrally.com er hægt að fræðast töluvert um staðsetninguna og söguna. Meðal annars segir frá ungum eldhugum sem komu keppninni á og stofnuðu klúbb. Keppnin í skóginum er alla jafna sú fyrsta á hinu breska ralldagatali hvers árs og þrátt fyrir válynd veður og ýmis óvænt atvik í náttúrunni hefur aldrei þurft að aflýsa rallinu. Brotin tré, hnéhæðarhátt snjólag og hiti undir frostmarki hafa ekki náð að koma í veg fyrir að keppt sé í Forest of Dean. Eins og Gunnar Karl Jóhannsson nefnir einmitt þá er skóglendið dálítið ófyrirsjáanlegt á þessum árstíma og fleira að varast en trén. Það getur myndast töluverður aur og svell verið í brekkunum þannig að áskoranirnar eru margar.
malin@mbl.is
Rallökumaðurinn Gunnar Karl Jóhannesson (t.h.) og George Gwynn aðstoðarökumaður eru …
Rallökumaðurinn Gunnar Karl Jóhannesson (t.h.) og George Gwynn aðstoðarökumaður eru klárir í slaginn fyrir Wyedean Rally um næstu helgi.
Bíllinn MMC EVO X eftir reynsluakstur Gunnars Karls á dögunum …
Bíllinn MMC EVO X eftir reynsluakstur Gunnars Karls á dögunum með kennaranum Matt Edwards. Gunnar Karl verður númer 50 í rásröðinni. Ljósmynd/Gunnar Karl Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: