Gunnar Karl besti ungi bílstjórinn

Þeir Gunnar Karl og George Gwynn stóðu sig með stakri …
Þeir Gunnar Karl og George Gwynn stóðu sig með stakri prýði á býsna öflugu tryllitæki í íslensku fánalitunum. Ljósmynd/Mark Hobbs

Um helgina fór fram Weir Engineering Wyedean Forest Rally 2015 í Forest of Dean í Gloucesterskíri í Bretlandi. Þar tók þátt hinn átján ára gamli Gunnar Karl Jóhannesson sem sýnt hefur hvað í honum býr í rallinu hér heima.

Rallið í Bretlandi var það fyrsta sem hann keppti í á erlendri grundu og það gerði hann á nýjum bíl, með nýjan aðstoðarökumann og stóð sig með prýði. Gunnar Karl keppti á MMC Evo X og við hlið hans var þrautreyndur aðstoðarökumaður, Bretinn George Gwynn.

Prýðilegur árangur

Skráðir voru 182 bílar í rallið og er það töluvert stærra en þau stærstu hér á landi. Af þeim 182 voru 65 í 1400cc flokki en 117 í aðalkeppnina og þar voru 109 sem kláruðu. Yfir heildina urðu þeir Gunnar Karl og Gwynn í 29. sæti og er engum blöðum um það að fletta að það þykir býsna góður árangur. Gunnar Karl fékk verðlaun fyrir að vera besti ungi ökumaðurinn, þ.e. í hópi tuttugu og tveggja ára og yngri. Nánar um tíma þeirra Gunnars Karls og Gwynns á leiðunum er að finna á vefsíðunni www.btrdarallyresults.co.uk.

40 ára afmælisrall

Eins og greint var frá á mbl.is síðastliðinn þriðjudag er þetta fertugasta árið í röð sem Wyedean Forest Rally fer fram og þrátt fyrir það veðurfar sem getur verið á þessum slóðum í febrúarmánuði hefur ekki eitt einasta rall fallið niður.

Ökumaðurinn Paul Bird og aðstoðarökumaðurinn Aled Davies báru sigur úr býtum í rallinu á Ford Focus WRC. Skotarnir Dave Weston og Kirsty Riddick urðu í öðru sæti á Subaru Impreza WRC. Í þriðja sæti urðu Hugh Hunter og Andy Marchbank á Subaru S11.

Á vefsíðu rallsins, www.wyedeanrally.com, kemur fram að þegar ræst var á laugardaginn hafi verið rigning rétt eins og dagana á undan þannig að það var mjög sleipt víða á leiðunum um skóginn. Menn glöddust því án efa þegar stytti upp skömmu síðar og skyggnið skánaði.

Drullan getur reynst lúmsk í keppni sem þessari og hrelldi nokkra keppendur. Annars gekk rallið vel fyrir sig og ekki virðist snjór hafa verið á leiðunum þetta árið.

Nú hefur Gunnar Karl nokkrar vikur til að hugsa um næsta rall í Bretlandi en það fer fram eftir átta vikur.

malin@mbl.is

Gunnar Karl Jóhannesson var valinn besti ungi ökumaður keppninnar.
Gunnar Karl Jóhannesson var valinn besti ungi ökumaður keppninnar.
Að ýmsu er að huga í ralli, enda mæðir mikið …
Að ýmsu er að huga í ralli, enda mæðir mikið á öllum hlutum bílsins. Ljósmynd/George Gwynn
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: