Ítalski sportbílasmiðurinn Scuderia Cameron Glickenhaus hefur nú kynnt til sögunnar tvo nýja sportbíla, hina feikna kraftmiklu SCG 003S (Stradale) og SCG 003C (Competizione).
Eins og nöfnin gefa til kynna er fyrrnefndi bíllinn, Stradale, götubíll en hinn er fyrst og fremst ætlaður til kappaksturs. Þetta eru sömu bílsmiðirnir og smíðuðu Enzo P4/5 og 430 Scuderia P4/5 Competizione.
Báðir eru þessir splunkunýju bílar smíðaðir upp af sama undirvagni. Afl fær Stradale úr V6-vél með tvöfaldri forþjöppu. Keppnisbíllinn verður hins vegar með 3,5 lítra V6-vél frá Honda er skilar 530 hestöflum við 6.800 snúninga og 700 Nm upptak við 4.500 snúninga.
Fyrstu eintökin af SCG 003S götubílnum verða afhent kaupendum undir árslok. Frumraun SCG 003C keppnisbílsins verður í sólarhringskappakstrinum í Nürburgring í sumar.