Árið 2018 eiga allir nýir bílar sem seldir eru á Evrópusambandssvæðinu að vera með búnað sem hringir sjálfkrafa í neyðarlínunúmer komi þeir við sögu í umferðaróhappi.
Fyrir tilstilli rafeindatækninnar og að því er virðist óendanlegra möguleika hennar verða bílar stöðugt snjallari. Mun það ekki verða sérlega flókið að búa svo um hnútana að bíllinn hringi sjálfur í neyðarnúmer spretti til að mynda líknarbelgur fram.
Nefnd þings Evrópusambandsins (ESB) sem fjallar um neytendavernd samþykkti í síðustu viku nýjar reglur um öryggisbúnað bíla með 26 atkvæðum gegn þremur. Með þeim verða bílsmiðaðir skyldaðir með lögum til að setja þennan sjálfvirka upphringibúnað, svonefndan eCall-búnað, í alla nýja bíla.
Gangi allt fram sem horfir kemur frumvarp þar að lútandi fyrir þingið í apríl og verður að lögum fyrir vorið. Koma síðan ákvæði laganna til framkvæmda í öllum 28 aðildarlöndum ESB hinn fyrsta mars 2018.
Frá og með þeim tíma verður það ein af forsendum þess að bíll fái fullt hús, eða fimm stjörnur, í árekstrar- og öryggisprófi Euro NCAP að í honum sé eCall sem staðalbúnaður. Meðal annars búnaðar sem er forsenda toppeinkunnar er hemlakerfi með bremsuvörn (ABS) og sjálfvirk neyðarhemlun (AEB).
Nokkrir bílsmiðir hafa þegar prófað sig áfram með sjálfvirkan neyðarhringibúnað. Þar á meðal General Motors sem mun búa alla Opel-bíla sem seldir verða í Evrópu frá og með ágústmánuði svonefndum OnStar-upphringi, sem nú þegar er að finna í bílum seldum í Bandaríkjunum og Kanada.
Hið samevrópska eCall-kerfi tengist GSP-búnaði í bílnum sem skilar staðsetningu hans í upphringingu vegna slyss. Meðal bílsmiða sem þegar bjóða upp á slíkt kerfi er Volvo og mun eCall virka nokkur veginn eins og það.
Að mati fyrrnefndrar þingnefndar ESB-þingsins mun eCall-kerfið geta bjargað um 2.500 mannslífum á ári þegar það verður að fullu komið til framkvæmda í aðildarríkjunum 28. Fyrst og fremst mun það að þakka því að búnaðurinn sendir upplýsingar um slys og staðsetningu þess á sömu sekúndum og það á sér stað. Tapast því enginn viðbragðstími og tæknin mun gefa neyðarlínunni kost á að meta hverslags viðbragða er þörf, þ.e. hvaða fjölda neyðarbíla og tækjakost þarf að senda á slysstað.
Í Danmörku er álitið að eCall muni fækka banaslysum í umferðinni um 30 mannslíf á ári. Alls biðu 170 manns bana í umferðinni í Danmörku í fyrra. Samkvæmt nýjustu tölfræði um banaslys í ESB-löndunum bíða að jafnaði 75 manns bana dag hvern í umferðinni í Evrópu. Á hverja milljón íbúa í ESB láta að meðaltali 55 lífið í umferðinni árlega. Í Danmörku er hlutfallið 30 en í löndum eins og Litháen, Írlandi, Póllandi og Grikklandi er hlutfallið rúmlega 90 manns.
agas@mbl.is