Mitsubishi-maðurinn

Jackie Chan.
Jackie Chan.

Bílablaðið tekur hús á kínverskum ökuþór að þessu sinni, enda Kína verið mikið í fréttunum undanfarnar vikur.

Jackie Chan, hasarmyndahetjan geðþekka, er mikill bílakarl. Hann virðist reyndar ekki eiga risastórt bílasafn, mögulega vegna þess að hann býr í Hong Kong og þar er mannþröngin mikil, landrými lítið og leitun að skemmtilegum akstursleiðum. Svo er Jackie auðvitað svo hógvær og jarðbundinn, og varla sú manngerð sem maður myndi halda að fyndi hjá sér hvöt til að eiga flota af drossíum og sportbílum. Hann segist þó hafa mjög gaman af að aka, og nota tækifærið til að setjast bak við stýrið á þeim stöðum þar sem hann tekur upp kvikmyndir sínar.

Þriggja áratuga ástarsaga

Jackie og Mitsubishi hafa átt í nánu samstarfi um margra ára skeið og Mitsubishi-bílar verið áberandi í myndum hans. Hófst samstarfið árið 1981 með Cannonball Run og hefur varað óslitið síðan þá. Margoft hefur Jackie haft á orði að samstarfið snúist ekki bara um peninga. Honum þyki Mitsubishi-bílarnir í sérflokki og haldi mikið upp á Pajeroinn sinn.

Má segja að Jackie Chan sé jafn nátengdur nafni Mitsubishi og Bond er tengdur Aston Martin eða Steve McQueen tengdur Ford Mustang.

Í myndinni Thunderbolt frá árinu 1995 lék Chan meira að segja bifvélavirkja í vinnu hjá Mitsubishi sem þarf að bjarga systur sinni frá klíku óprúttinna glæpamanna.

Skömmu síðar, árið 1998, lék Jackie í myndinni Who Am I og fékk Mitsubishi Evo þar að spila stórt hlutverk í æsispennandi akstursatriði á götum Amsterdam. Þykir kappaksturssenan mjög vel heppnuð og endar, eins og frægt er orðið, á því að kvensöguhetjan sem situr undir stýri rennir bílnum af mikilli fimi í þröngt bílastæði og fylgist með bílnum sem eltir aka rakleiðis framhjá.

Árið 2005 stóð Jackie, ásamt fyrirtækinu FireSports, að gerð sérstaks Mitsubishi Evolution IX, „Jackie Chan Edition“ sem búið er að gefa aukinn kraft og nokkuð sérstakt útlit. Eru reyndar skiptar skoðanir um hversu fallegir bílarnir eru en þeir voru fáanlegir í mjög takmörkuðu upplagi og kostuðu um 77.000 dali stykkið. Heima í Hong Kong ekur Jackie um á FireSports Evo XIII MR sem á að vera sá eini sinnar tegundar.

Dýrir bílar fyrir góðan málstað

Fyrir nokkrum árum tók Jackie þátt í markaðsherferð fyrir Bentley Mulsanne, Mulsanne Visionaries. Þar spjallar hann um lífssýn sína og gildi þess að gleðja aðra frekar en að sanka að sér dýru glingri. Ekki er ljóst hvort Jackie á Bentley sjálfur, en tilefnið var að Bentley fékkst til að gefa einn af bílum sínum, forláta hvítan Mulsanne, til að selja á góðgerðauppboði.

Á síðasta ári endurtók Jackie leikinn, í þetta skiptið með Lamborghini. Langaði ítalska sportbílaframleiðandann að vekja athygli á Ad personam-þjónustunni sinni sem felst í að laga hvert smæsta smáatriði í útliti bílanna að óskum kaupandans. Útbjó Lamborghini sérstaka Jackie Chan-útgáfu af Aventador, með títaníumgráu lakki, svörtum felgum og eldrauðum bremsum. Að innan var blandað saman svörtum og rauðum litum og sérstakur útsaumur settur bæði í höfuðpúðann og á innanverðar hurðirnar. Var bíllinn seldur á uppboði til styrktar China Film Institute, góðgerðasjóði sem Jackie rekur til að styðja við kvikmyndagerð í Kína.

Á umdeildum plötum

Eins og Jackie er viðkunnanlegur karl olli það mörgum aðdáendum hans vonbrigðum árið 2013 þegar myndir birtust af honum frá Beijing þar sem hann sest inn í forláta svartan Audi með númeraplötum sem merktar eru kínverska hernum. Ríka og fína fólkið í Kína ku hafa átt það til að fá slíkar plötur á bílana sina, falsaðar eða ekta. Með slíkar númeraplötur má reikna með að sleppa við stöðu- og hraðasektir og þykir mikið stöðutákn. Seinna sama ár gerðu stjórnvöld átak sem átti að draga mjög úr þessari misnotkun á númeraplötukerfinu.

Fyrir þá sem vilja fá meira af Jackie Chan í lífið má benda á vefverslunina Jackiechandesign.com. Um er að ræða fyrirtæki sem heldur utan um ýmiss konar Jackie Chan-varning, og þar á meðal má finna skrautvörur fyrir bílinn. ai@mbl.is

Jackie stillir sér upp við forláta Bentley Mulsanne, við Kínamúrinn.
Jackie stillir sér upp við forláta Bentley Mulsanne, við Kínamúrinn. Ljósmynd/Bentley - Adam Dean
Eltingaleikurinn í kvikmyndinni Who Am I þykir mjög skemmtilegur og …
Eltingaleikurinn í kvikmyndinni Who Am I þykir mjög skemmtilegur og frumlegur fyrir margra hluta sakir.
Deilt er um hversu fallegur Mitsubishi Evo „Jackie Chan Edition“ …
Deilt er um hversu fallegur Mitsubishi Evo „Jackie Chan Edition“ er.
Lamborghini Aventador í Chan-útgáfu.
Lamborghini Aventador í Chan-útgáfu.
Lamborghini Aventador í Chan-útgáfu.
Lamborghini Aventador í Chan-útgáfu.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Loka