Verður Chris Evans einn bakvið stýrið í Top Gear?

Ein af ástríðum Chris Evans er að safna hvítum Ferrari-bílum …
Ein af ástríðum Chris Evans er að safna hvítum Ferrari-bílum sem hann stillir sér hér upp við þegar tilkynnt var að hann myndi taka við sem stjórnandi Top Gear-þáttanna.

Miklar vangaveltur hafa verið uppi um hina nýju kynna bifreiðaþáttarins Top Gear og hafa menn gert því skóna að jafnvel muni kvenmaður feta í fótspor þeirra Jeremy Clarkson, Richard Hammond og James May.

Nú hefur Chris Evans, sem tilkynnt hefur verið að taki við þættinum, gefið til kynna að hugsanlega verði hann eini kynnir þáttanna þegar hann tekur við þeim á næsta ári.

„Þeir eru „The Three Stooges“, þeir eru „The Bee Gees“. Þeir eru það og ég er það ekki. Ég er ég,“ sagði hann í viðtali á Mipcom-sjónvarpsráðstefnunni í Cannes, Frakklandi.

„Ég er sóló listamaður í augnablikinu, ég er einn. Svo set ég saman hljómsveit eða ekki?“

Talið hefur verið að Evans myndi velja sér tvær hjálparhellur og höfðu þau Zoe Ball, Guy Martin og Dermot O‘Leary m.a. verið nefnd við hlutverkin. Evans hafði einnig boðið aðdáendum að senda inn prufumyndskeið af sér og jafnvel boðið nokkrum að spreyta sig fyrir framan myndavélina.

„Við ætlum að gera hlutina öðruvísi, af því að við þurfum að gera það, af því að við viljum gera það,“ sagði hann í Cannes. Hann sagðist ekki vilja falla í þá gildru að reyna að gera nákvæmlega það sama og Clarkson, Hammond og May. Útilokaði hann þannig alfarið að þrír karlmenn myndu kynna þáttinn.

„Eitt er víst að þetta verður ekki ég og svo einn gaur þarna og annar gaur þarna, það mun ekki gerast.“

Evans gaf einnig upp að þættirnir yrðu með öðru sniði en áður, þeir myndu ekki samanstanda af fjórum tengiatriðum úr sal og þremur sem höfðu verið tekin upp áður. Hann sagðist hinsvegar ekkert geta gefið upp um eðli breytinganna.

Eitt mun þó ekki breytast. Dularfulli kappaksturskappinn Stig mun einnig láta sjá sig í nýju þáttaröðinni sem hefst í maí 2016.

mbl.is