Fimm mestu ofurbílarnir

Breski bílaþátturinn Top Gear hefur útnefnt fimm stórkostlegustu ofurbílana sem nú eru fáanlegir í veröldinni.

Hér er um enga aukvisa að ræða heldur hvern kostagripinn af öðrum, eða sem sagt Ferrari LaFerrari, Porsche 918 Spyder, McLaren P1, Lamborghini Aventador og Pagani Huayra. 

Dýrastur þeirra er sá fyrstnefndi, LaFerrari, sem kostar um milljón sterlingspunda, eða sem svarar 199 milljónum króna. 

Næst dýrastur er Huyara sem að sögn Top Gear kostar litlu minna eða 990.000 pund, sem svarar til 197 milljóna.

McLaren P1 kostar 866.000 pund (172 milljónir króna) á götuna kominn og 918 Spyder 646.651 pund (128 milljónir).

Lang billegastur er Aventador á 260.040 pund eða 52 milljónir króna.

Ferrari LaFerrari er með 950 hestafla vél og kemst úr kyrrstöðu og upp í 100 km/klst ferð á 2,9 sekúndum. Hámarkshraði er 350 km og bíllinn losar 330 g/km af gróðurhúsalofti.

Porsche 918 Spyder er með 903 hestafla vél og slík er vinnslan, að hann nær 100 km/klst ferð úr kyrrstöðu á 2,6 sekúndum.  Hámarkshraði er 340 km/klst. Losar aðeins losar 70 g/km af gróðurhúsalofti sem er lýginni líkast, ef uppgefin tala er rétt.

McLaren P1 lýsti Jeremy Clarkson á sínum tíma sem „risastökki í þágu mannkynsins“ en orðhákur sá er ekki lengur við stjórnvölinn hjá Top Gear. Um er að ræða tvinnbíl 903 hestafla sem nær 100 km ferð á 2,8 sekúndum, með 348 km hámarkshraða og losar 194 g/km af gróðurhúsalofti.

Aventador er með drif á öllum hjólunum fjórum og svonefndar skærahurðir. Hann er  búinn 690 hesta V12-vél er skilar bílnum á 100 km ferð úr kyrrstöðu á aðeins 2,9 sekúndum.  Losar ógnvekjandi mikið koltvíildi eða 370 g/km.

Vélarhúsið á Huayra er gríðarlega stórt enda þarf þar að koma fyrir AMG V12-vél með tvöfaldri forþjöppu. Þó eru ekki nema 720 hestöfl í aflrásinni en bíllinn nær 100 km ferð úr kyrrstöðu eftir aðeins 3,2 sekúndur. Stillanlegar vindskeiðar leyfa ökumanni að stjórna veggripinu.

Ferrari þykir það líklegast móðgun þegar spurt er um bensíneyðslu LaFerrari því hún hefur ekki verið gefin upp. Hinir fjórir eru misjafnlega neyslugrannir. Þannig er uppgefin eldsneytisnotkun Porsche 918 Spyder aðeins 2,5 lítrar á hundraðið og McLarenbílsins 7 lítra en báðir eru tvinnbílar með rafmótor auk bensínvéla.

Öllu hraðar sýpur bensínvél Pagani Huayra eða 10,5 lítra á hundrað km. Drykkfelldastur er svo Lamborghini Aventador en til 100 km aksturs þarf hann 13,5 lítra af bensíni.

mbl.is