Síðasti Defenderinn af færibandinu í dag

Land Rover Defender jeppinn hefur gagnast mörgum undanfarin 70 ár.
Land Rover Defender jeppinn hefur gagnast mörgum undanfarin 70 ár.

Næstum 70 árum eftir að fyrsti Land Rover Defender jeppinn kom á sjónarsviðið í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar, rennur síðasta bifreiðin þeirrar gerðar af færibandinu í dag.

Jeppinn hefur þjónað mörgum ólíkum persónum á sínum langa ferli, þar á meðal James Bond, Winston Churchill, drottningunni og ýmsum meðlimum bresku konungsfjölskyldunnar, að ógleymdum fjölmörgum Íslendingum.

Defenderinn, sem hlaut nafn sitt árið 1990, hefur verið nýttur af breskum hersveitum í Norður-Írlandi, Írak og Afganistan ásamt því sem hann hefur gagnast bændum sem þurfa að komast leiðar sinnar á torfærum svæðum.

Samræmist illa löggjöf nútímans

Vinsældir jeppans hafa þó dvínað auk þess sem löggjöf og tækni hefur náð í skottið á honum að ýmsu leyti. Þannig voru hliðarsæti hans bönnuð af Evrópusambandinu árið 2007 og umhverfis- og öryggisstaðlar nútímans hafa gert hann nær úreltan.

Land Rover fagnaði merki­leg­um tíma­mót­um í júní síðastliðnum þegar tví­millj­ón­asti Def­end­er-jepp­inn var fram­leidd­ur í verk­smiðju Jagu­ar Land Rover í Soli­hull í Bretlandi. Af þessu til­efni var smíðað sér­stakt úr­val­sein­tak af Def­end­er 90 jepp­an­um sem fékk nafnið Def­end­er 2.000.000.

Frétt mbl.is: Tvímilljónasti Defenderinn rennur af færibandinu

Jaguar Land Rover mun framleiða nýja gerð sem bera mun Defender nafnið á næstu árum. Sá jeppi mun þó ekki skarta sömu einkennum og gerðu Defender jeppana einstaka í sjón.

mbl.is