Það er ekki á hverjum degi sem Íslendingar eignast nýtt bílaumboð, og hvað þá umboð fyrir risaframleiðanda. Íslensk-Bandaríska, Ísband, í Mosfellsbæ hefur tekist að gera umboðssamning við Fiat-Chrysler og eru fyrstu bílarnir nýkomnir til landsins.
Októ Þorgrímsson, eigandi og forstjóri fyrirtækisins, segir svo mikið úrval bíltegunda innan Fiat-Chrysler-fjölskyldunnar að þegar allar tegundirnar verða í boði komi umboðið næst á eftir B&L í fjölda vörumerkja.
Undir Fiat-Chrysler heyra meðal annars Jeep, Dodge, Ram, Alfa Romeo og vitaskuld Chrysler og Fiat. „Við verðum eitt af örfáum löndum í heiminum sem verður með öll vörumerki samsteypunnar og njótum þar góðs af því að vera mitt á mili evrópska markaðarins og þess bandaríska,“ segir Októ en í fyrstu verður lögð áhersla á Ram og Dodge, Fiat og Fiat Professional, að ógleymdum Jeep. Innflutningur á Alfa Romeo- og Chrysler-bílum mun hefjast á næsta ári.
Fiat og Chrysler sameinuðust að fullu árið 2014 og hefur verið stýrt af miklum metnaði af Ítalanum Sergio Macchione. Októ segir að mikil áhersla Macchione á vöxt samsteypunnar hafi hjálpað til að koma litla Íslandi á radarinn hjá þessum alþjóðlega bílarisa. Ísband hefur um alllangt skeið flutt inn bíla á eigin vegum. „Þetta hafa iðulega verið holl af bílum sem falla milli þilja þegar aðstæður breytast á tilteknum markaði, s.s. ef óvænt breyting á tollalögum veldur því að stór pöntun verður ekki eins söluvænleg og reiknað var með. Í gegnum þau viðskipti kynnumst við Gene Heideman, fyrrum forstjóra Chrysler fyrir Evrópumarkað, sem síðan hjálpar okkur að ná til eyrna fólksins í efstu stöðum í höfuðstöðvum Fiat-Chrysler í Detroit.“
Það var nokkurra ára ferli að fá umboðið, ítarleg könnun var gerð á Októ og Ísband og miklar kröfur um þjónustu við viðskiptavini. „Þeir athuguðu bakgrunn minn rækilega og öfluðu upplýsinga um bílaviðskipti okkar og þjónustu við íslenska neytendur. Macchione hefur verið að ryðja Fiat-Chrysler leið inn á ný markaðssvæði og eflaust að hann hefur séð að þótt íslenski markaðurinn sé ekki stór þá geti hann hjálpað til að ná sölutölunum upp á heimsvísu.“
Að sögn Októ þurfti að fá Fiat-Chrysler til að taka tillit til aðstæðna á Íslandi. „Við gerðum þeim ljóst að Ísland er ekki nema 330.000 manna samfélag og að nauðsynlegt væri að slaka á ströngustu stöðlum. Við getum ekki í fyrstu atrennu byggt veglegt nýtt verslunar- og þjónustuhúsnæði þar sem öllum ítrustu kröfum er fullnægt, og gefa þarf fyrirtækinu tíma til að byggja reksturinn upp á skynsaman hátt.“
Að Fiat Chrysler skuli hafa eignast umboðsmann á Íslandi ætti að vera gleðifréttir fyrir þá sem eru í bílakaupahugleiðingum enda von á mörgum spennandi bílum á markaðinn. Bindur Ísband m.a. miklar vonir við jeppana frá Jeep. „Jeep sameinar í einu ökutæki alvörujeppa og bíl sem er hentugur fyrir borgarakstur. Grand Cherokee er flaggskipið, veglegur og vel útbúinn, og í næstu stærð þar undir kemur Cherokee, ögn minni um sig. Verður svo gaman að sjá hvernig nýi Jeep Renegade fellur í kramið, en hann er í smájeppastærð og hefur selst mjög vel í öðrum löndum. Ekki má heldur gleyma Wrangler en sá sígildi jeppi hefur m.a. notið vinsælda hjá efnameiri karlmönnum sem langar í öflugt leiktæki fyrir krefjandi vegi og ófærur.“
Fiat-merkið ætti líka að gera lukku og nefnir Októ þar fyrst af öllu vel heppanaða Fiat 500-smábílinn. „Hönnun 500-týpunnar tókst svo vel að hún er orðin að heilli fjölskyldu bíla, allt upp í 500x smájeppann. Þó að 500-bílarnir séu litlir þykja þeir hafa á sér ákveðinn glæsileika sem aðra smábíla vantar og er bíll sem allir geta verið flottir á,“ segir hann. „Hin hliðin á framboðinu hjá Fiat er „functional“-fjölskyldan þar sem enn meiri áhersla er lögð á hagkvæmni. Þar má t.d. finna Fiat Panda og Fiat Tipo sem hafa verið vinsælir fjölskyldu- og atvinnubílar.“
Fiat-Chrysler-umboðið mun selja Fiat og Fiat Professional-atvinnubílana með fimm ára ábyrgð. „Miklar framfarir hafa átt sér stað í allri hönnun, framleiðslu og gæðaeftirliti og því mun framleiðandinn geta boðið íslenskum kaupendum upp á 5 ára ábyrgð.“
Af Chrysler-bílunum nefnir Októ Chrysler Pacifica-smárútuna sem fáanleg verður sem tengiltvinnbíll en aðrir bilar í Chrysler-línunni verða líklega ekki á því verðbili að hentugt verði að flytja þá til Íslands að svo stöddu. „Við leggjum þá í staðinn áherslu á pallbílana frá Ram. Pallbílar eiga tryggan kaupendahóp á Íslandi, s.s. hjá björgunarsveitunum, hestafólki og hjá ýmiss konar verktökum. Þetta eru vinnuþjarkar en eru í dag líka orðnir eins og lúxusbílar að innan og auðvelt að aka þeim.“
Umboðið tók við fyrstu bílunum niðri við Sundahöfn fyrr í þessum mánuði en íslenska Fiat-Chrysler-umboðið mun ekki opna formlega fyrr en á haustmánuðum. „Við höfum ráðið til okkar reynda bifvélavirkja og mun Jóhannes Jóhannesson verða framkvæmdastjóri þjónustusviðsins, en hann starfaði áður til fjölda ára á þjónustusviði Toyota. Þá erum við að tryggja gott þjónustunet um land allt.“