Í nýju samkomulagi um bætur vegna útblásturshneykslis hefur Volkswagen samþykkt að borga umboðssölum sínum í Bandaríkjunum 1,2 milljarða dollara - um 137 milljarða íslenskra króna í bætur.
Að baki samkomulaginu eru fjögurra mánaða strangar viðræður, en því er ætlað að koma til móts við skaða sem seljendur VW-bíla í Bandaríkjunum hafa orðið fyrir vegna útblásturshneykslisins.
Þetta samkomulag VW og umboðsfyrirtækjanna kemur til viðbótar samtals 14,7 milljarða dollara bótum og sektum sem VW hafði samþykkt að borga vegna útblásturssvindlsins. Nemur það 1676 milljörðum íslenskra. Ná þær bætur til eigenda um 480.000 bíla með 2ja lítra vélum. Enn er eftir að leiða til lykta bætur til um 80.000 eigenda VW dísilbíla með 3ja lítra vélum. Hefur Volkswagen frest út október til að ljúka því máli án inngrips stjórnvalda.
Með samkomulaginu í dag og hinu fyrra hefur Volkswagen fallist á að borga samtals 15,9 milljarða dollara í bætur vegna útblásturshneykslisins eða sem svarar til 1.813 milljarða króna.