VW selur ekki dísilbíla vestra í bráð

Útblásturshneykslið á eftir að verða Volkswagen dýrt.
Útblásturshneykslið á eftir að verða Volkswagen dýrt. AFP

Afleiðingar útblásturshneykslisins sem við Volkswagen (VW) er kennt og kom upp fyrir rösku ári  hafa verið margvíslegar. Og nýjar að koma í ljós.

Þegar hefur VW fallist á að borga sektir og bætur að samtals 16 milljörðum dollara en bótamálunum er samt ekki öllum ólokið. Og heldur ekki dómsmálum sem snúast um meint brot á bandarískri hegningarlöggjöf.
 
Nýjasta bótasamkomulagið, frá því á föstudag, felur í sér, að Volkswagen selji ekki bíla með dísilvélum í Bandaríkjunum hvorki  á þessu ári eða því næsta. Og jafnvel aldrei aftur. Kemur kannski ekki svo á óvart í ljósi þess, að umboðsmenn Volkswagen hafa ekki getað selt dísilbíla það sem af er árinu.

Í skjölum sem lögð hafa verið fyrir dómsstóla í þeim tilgangi að fá nýjasta bótasamkomulagið staðfest kemur fram, að Volkswagen muni enga dísilbíla af árgerðunum 2016 og 2017 selja í Bandaríkjunum. Og jafnvel aldrei.

Var sett bann við sölu slíkra bíla frá VW síðla árs 2015 eftir að svipt var hulum af víðtæku svindli sem fólst í því að blekkja fram óraunverulegar niðurstöður á mengunarmælingum. Var sérstökum blekkingarbúnaði komið fyrir í stjórntölvum bílanna í því skyni.

mbl.is