Í kapp við sólina umhverfis Ísland á Nissan GT-R

Útsendari Top Gear naut sín vel í akstri í íslensku …
Útsendari Top Gear naut sín vel í akstri í íslensku landslagi en var þreyttur í lok 21 stundar ferðalags umhverfis Ísland í kapp við sólina, þó bílkosturinn væri með besta móti. Ljósmynd/BBC-Top Gear

Útsendari breska bílaþáttarins vinsæla Top Gear gerði sér ferð til Íslands í sumar í heldur óvenjulegum tilgangi. Jú, hann skyldi aka hringveginn í kappi við sólina og kvaðst myndu hefja og ljúka ferðinni í dagsbirtu sem nyti við í 21 klukkutíma af 24.

Áætlunin hljóðaði upp á að leggja af stað við sólarupprás í Reykjavík við sumarsólhvörf og ljúka hringnum við sólarlag, eða á 21 tíma. Ákváðu sjónvarpsmenn að halda sig sem mest við þjóðveg númer eitt en ákváðu að leyfa sér smá útúrdúra sem væru viðeigandi fyrir fjórhjóladrifinn fararskjóta þeirra, hinn 562 hestafla Nissan GT-R bíl sem væri álíka eldfjall í sjálfu sér og Ísland.

„Ísland er að hálfu leyti í Evrópu. Vesturhluti þess er hins vegar strangt til tekið í Norður-Ameríku. Virk eldfjallakeðja stjakar landinu í sundur. Hún er hluti af Atlantshafshryggnum, flekaskilum heimsálfanna tveggja. Flekarnir færast hvor í sína áttina, sem þýðir að sá sem hyggur á ferð sem þessa að ári verður að aka lengra, eða sem nemur fjórum sentímetrum,“ segir meðal annars í grein Top Gear.

Leiðangursmenn nutu ekki gervihnattaleiðsögu – búnaður þeirra náði ekki til Íslands – en engu að síður segja þeir með eindæmum erfitt að rata ekki þjóðveg eitt. Þeir hófu aksturinn við uppgefna upprás sólarinnar, eða klukkan 2.55 að nóttu. Takmarkið var að vera komnir aftur til Reykjavíkur þremur mínútum eftir næsta miðnætti. „En það var engin dögun, engin ljósaskipti, það verður aldrei dimmt. Dagurinn byrjar og endar undir seigfljótandi skýjum, ekki þessum blóðrauða og gyllta himni eins og ég hafði vonað. Myrkurvöntun og klínandi dagsbirtan deyfandi máttlaus. Fyrstu stundirnar liggur leiðin með lágsettri strandlengjunni. Brýr eru við og við og ein löng jarðgöng undir sjóinn og lykta af fiskifýlu,“ segir m.a. í frásögninni.

Lýsa Top Gear-menn síbreytilegu og framandi landslaginu með skrúðmælgi. Svo hrjóstrugt fannst þeim það á köflum og svipandi til annarra hnatta að þeir segjast allt eins hafa búist við að mæta könnunarfarinu Mars Rover. Óhætt er að segja að greinin langa um ferðalagið og magnaðar ljósmyndir séu Íslandi hagstæð. Inni á milli lýsa þeir glímum bílsins kraftmikla í þeim aðstæðum sem biðu hans hér.

Ferðalaginu lauk þar sem það hófst 21 stundu áður, við tónleikahúsið Hörpu. Meðal bensíneyðsla hins kraftmikla sportbíls var 11,4 lítrar á hundraðið. Og meðalhraði akstursins 68 km/klst. Er þá ekki tekið tillit til stoppa á leiðinni.

„Á einum degi, í einu landi en tveimur heimsálfum, og undir sterkum áhrifum annarra pláneta. Gufa og jökulís, fjöll og flatneskjur, eilífar sviptingar í veðrinu og loftslaginu. Þetta gæti verið fyrsta heimsókn GT-R til Íslands en í öllum kringumstæðunum, á öllum þjóðvegunum, virkaði hann aldrei sem hann ætti ekki heima í þeim aðstæðum,“ segir í frásögninni. agas@mbl.is

Fjórhjóladrifinn og með yfir 500 hestafla vél er það leikur …
Fjórhjóladrifinn og með yfir 500 hestafla vél er það leikur einn fyrir Nissan GT-R að þræða sig upp krókóttan veginn upp Öxi úr Berufirði. Ljósmynd/BBC-Top Gear
Þar sem Nissan GT-R er fjórhjóladrifinn og með yfir 500 …
Þar sem Nissan GT-R er fjórhjóladrifinn og með yfir 500 hestafla vél er það leikur einn fyrir bílinn að þræða sig upp krókótta fjallvegi Íslands. Landsmenn þekkja hér lúpínuna og Dyrfjöll í Norður-Múlasýslu í baksýn, milli Fljótsdalshéraðs og Borgafjarðar eystri. Ljósmynd/BBC-Top Gear
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: