Franski bílsmiðurinn Citroen er einkar hress með undirtektir neytenda við hinn nýja C3 bíl sem kom á markað í nóvember í fyrra.
Á þessu tæpa ári hafa yfir 200.000 eintök af C3-bílnum selst og fyrstu níu mánuði ársins seldi Citroen 64% fleiri C3 í Evrópu en á sama tímabili í fyrra.
Er þessi fyrsti liðsmaður nýrrar kynslóðar bílsins söluhæsti einstaki bíll Citroen á árinu. Toppútgáfu hans, „Shine“, völdu 45% kaupenda og 60% völdu bíl í tveimur litum, þ.e. þakið í öðrum lit en aðrir fletir yfirbyggingarinnar.
Þá völdu 55% bíl með gúmmítúttunum „Airbump“ á hliðunum en þær eru fyrst og fremst hugsaðar til að verja bílinn við samstuð og utanínudd, t.d. á þéttsetnum bílastæðum stórmarkaða.
Hinum nýja Citroen C3 hefur hlotnast 30 verðlaun og viðurkenningar víða í Evrópu frá því hann kom á götuna fyrir tæpu ári. Þar á meðal viðurkenninguna „besti borgarbíll ársins“ frá Top Gear bílaþætti breska sjónvarpsins BBC. Í Grikklandi var hann útnefndur bíll ársins og einnig áskotnaðist bílnum svonefnd Red Dot hönnunarviðurkenningu sem alþjóðlegur hópur dómenda velur. Loks má nefna svonefnd „Auto Europa 2018“ verðlaun sem afhent voru á Ítalíu í síðustu viku.