Þýski bílsmiðurinn Opel, sem er í eigu frönsku samsteypunnar PSA Peugeot Citroen, er að endurskipuleggja framtíðaráform sín og verða rafbílar þar aðalhlutverki.
Til að stöðva viðvarandi taprekstur er Opel önnum kafið við að losa sig við GM bíltækni og brúka í staðinn franska íhluti. Í því skyni munu nýju ný bílamódel sjá dagsins ljós fyrir árslok 2020, með svonefndri PACE áætlun, að sögn forstjórans Michael Lohscheller.
„PACE mun gefa því sem í okkur býr lausan tauminn. Áætlunin er fyrirtækinu mikilsverð, til að vernda starfsmennina í mótbyr og mun gera Opel/Vauxhall að sjálfbæru, arðbæru, rafvæddu og hnattrænu fyrirtæki,“ segir Lohscheller.
Samkeppnisfærni bíla Opel verður bætt með því meðal annars að lækka kaupverð hvers bíls um 700 evrur og lækka kostnað vegna markaðssetningar um 10%.
Þegar PSA og GM sömdu um yfirtöku franska fyrirtækisins á Opel í mars sl., var áformað að innleiða PSA-smíðistækni hjá bílsmiðnum frá og með 2019. Áætlað var að þeim breytingum yrði að fullu lokið á átta árum. Með nýrri viðskiptaáætlun verður þessu hraðað til muna og Opel komið með fullan aðgang að rafbílatækni PSA árið 2020. Yrði Opel þá komið með hreinan Corsa-rafbíl og tengiltvinnsútgáfu af Grandland X jeppanum, sem byggir á 3008-módelinu frá Peugeot.
Sem stendur brúkar Opel níu mismunandi undirvagna og 10 mismunandi vélafjölskyldur. Árið 2024 verða undirvagnarnir aðeins tveir og aflrásirnar fjórar. Á hverri framleiðslulínu verða rafútgáfur bíla en óljóst er um framtíð dísilvéla hjá bílsmiðnum. Opel mun þegar þarna kemur smíða jeppa og meðalstóran bíl upp af EMP2 undirvagni PSA. Jeppinn verður framleiddur í bílsmiðjunni í Eisenach í Þýskalandi en sá síðarnefndi smíðaður í Rüsselsheim þar sem er að finna höfuðstöðvar Opel. Þar í borg fer fram öll verkfræðileg vinna við hönnun og þróun allra Opel- og Vauxhall bíla eiga sér stað.
Í PACE-áætluninni kemur fram að Opel muni sækja inn á 20 nýja markaði víðsvegar um heim. Þar eru Kína og Brasilía nefnd sérstaklega en í þeim hafa Opelbílar hingað til verið seldir sem Chevrolet. Þá verður og væntanlega sótt inn á Bandaríkin en þar hefur Opel-merkið ekki sést í áratugi, þótt til dæmis GM-merki eins og Buick Regal sé lítið annað en Opel-bíll.