Uppfærður Nissan e-NV200 frumsýndur

Rafknúni sendibíllinn Nissan e-NV200.
Rafknúni sendibíllinn Nissan e-NV200.

Nissan kynnir á atvinnutækjasýningunni í Hannover, sem hefst á morgun, föstudag, rafknúna fjölnota sendibílinn e-NV200 sem fengið hefur nýja og öflugri 40kWh rafhlöðu sem dregur allt að 60% lengra en fyrri kynslóð.

Nýja rafhlaðan gerir kleift að aka bílnum um 200 km í blönduðum akstri innan og utan þéttbýlis samkvæmt nýja mælistaðlinum WLTP og allt að 300 km í borgarakstri eingöngu áður en hlaða þarf að nýju.

Á þessu ári hafa um sjö þúsund fyrirtæki pantað 40 kWh Nissan e-NV200 sem er 128% aukning frá árinu 2017. Þeirra á meðal eru þrjú hollensk leigubílafyrirtæki sem pöntuðu alls 50 bíla fyrir 7 farþega sem notaðir verða í Rotterdam og nágrenni.

„Nýr Nissan e-NV200 hentar ákaflega vel í farþega- og sendibílaakstri á borgasvæðum víða um heim enda getur hann dregið allt að 300 km á hleðslunni. Sem sendibíll til vöruflutninga Til vöruflutninga rúmar hann tvær Europallettur sem vegið geta samtals allt að 705 km. Og að sjálfsögðu hentar e-NV200 vel barnafjölskyldum,“ segir í tilkynningu.

Sá mest seldi

Rafknúni sendibíllinn Nissan e-NV200.
Rafknúni sendibíllinn Nissan e-NV200.


Þar er því bætt við, að atvinnubíllinn Nissan e-NV200 hafi verið sá mest seldi í sínum flokki í Evrópu árin 2016 og 2017 og bendi flest til þess að svo verði einnig í ár. Auk góðrar hönnunar til flutninga á vörum og farþegum búi e-NV200 yfir fjölmörgum tækninýjungum og lausnum Nissan Leaf og sem gert hafa hann að mest selda rafbíl veraldar.

Nissan e-NV200 býr einnig yfir þeim eiginleika að á fleiri og fleiri stöðum á meginlandi Evrópu geta notendur bílsins nýtt rafhlöðu bílsins til að geyma og miðla raforku til annarra nota, t.d. með því að tengja bílinn inn á raforkuinntak heimilis þeirra eða vinnustaðar. Tæknin nefnist Vehicle-to-Grid Technology (V2G) sem gerir eigendum e-NV200 og Leaf kleift að selja orku af rafhlöðu bílsins inn á almenna raforkukerfið á háannatíma þegar raforkuverð er hátt og kaupa á móti raforku inn á rafhlöðuna utan háannatímans þegar verðið er lægra. Hugmyndina þróaði Nissan upphaflega. Evrópsk raforkufyrirtæki líta á V2G sem tækifæri til að létta álagi af raforkukerfunum og eigendur bílanna sem leið til að afla sér aukatekna sem mismunur raforkuverðsins skapar við kaup og sölu.

Rafknúni farþega- og sendibíllinn Nissan e-NV200 kom á markað árið 2014 og hafa tæplega átján þúsund bílar verið teknir í notkun síðan þá.

mbl.is
Loka