Þýski bílaframleiðandinn Porsche hyggst hætta framleiðslu bíla sem ganga fyrir dísilvélum og einbeita sér að framleiðslu bensín-, rafmagns- og tvinnvéla. Ákvörðunin tengist útblásturshneykslinu sem kom upp árið 2015 þar sem móðurfélag Porsche, bílaframleiðandinn Volkswagen, viðurkenndi að hafa komið fyrir búnaði í dísilvélum til að blekkja mengunarmæla.
„Ímynd Porsche hefur skaðast. Útblásturshneykslið olli okkur miklum vandræðum,“ sagði forstjóri Porsche, Oliver Blume og bætti því við að framtíðin liggi í framleiðslu bíla sem gangi fyrir öðrum orkugjöfum. Eigendur Porsche-díselbíla þurfa þó ekki að örvænta því fyrirtækið mun halda áfram að veita þjónustu og sinna viðhaldi á slíkum bílum.
Dísilbílar hafa verið bannaðir á stöðum í Þýskalandi og víðar um Evrópu með því markmið að draga úr mengun og útblæstri skaðlegra efna.
Volkswagen var fyrr á þessu ári sektað um 900 milljónir punda fyrir að hafa selt meira en 10 milljónir bíla með búnaði sem blekkir mengunarmæla á árunum 2007 til 2015.