Eldur í rafbílum reynist erfiður viðureignar

Margar einingar, eða sellur, eru tengdar saman og mynda drifrafhlöðu …
Margar einingar, eða sellur, eru tengdar saman og mynda drifrafhlöðu rafbílsins. Vandasamt er að meðhöndla rafhlöðurnar. Ljósmynd/Wikimedia

„Það er erfiðara að slökkva eld í rafbílum heldur en öðrum bílum,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Ástæða þess felst í rafhlöðum og byggingu bílsins.

Hætta er á að eldur í rafbíl blossi upp aftur og aftur og slökkvistarfið tekur lengri tíma því það getur verið erfitt að komast að eldsupptökunum.

„Það þarf alveg nýja aðferð og verklag. Við höfum verið að þjálfa okkar fólk og er verið að horfa á til dæmis að setja viðkomandi bíl inn í eldvarnarteppi, svipað og þegar er verið að slökkva eld í potti,“ sagði Jón Viðar. Við eldsvoða í rafbílum þarf og einnig að afstýra því að slökkviliðsmenn fái rafstuð. Norðmenn eru komnir lengra í þessu en við og hafa íslenskir slökkviliðsmenn fengið að njóta reynslu þeirra.

„Við höfum ekki lent í neinu svona óhappi hér á landi, þrátt fyrir fjölgun rafbíla,“ sagði Jón Viðar. Hann sagði að tíðni eldsvoða í rafbílum væri ekki há.

Drifrafhlöður eru ekki enn inni í kerfinu hjá Úrvinnslusjóði. Innflytjendur bíla hafa borgað fyrir endurvinnslu rafhlaða úr tjónabílum, kostnaðurinn nemur 200-300 þúsund krónum á bíl. Úrvinnslugjald fyrir drifrafhlöður er í skoðun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: