Tveir af hverjum þremur vistvænir

Ríflega 64% allra nýrra bíla sem Hekla hefur selt til einstaklinga það sem af er ári hafa verið vistvænir.

„Hekla hefur síðustu misseri verið annað stærsta bílaumboðið þegar kemur að sölu til einstaklinga með tæp 22% markaðshlutdeild,“ segir í tilkynningu. 

Þar segir ennfremur, að þegar litið er á sölu vistvænna bíla frá upphafi árs til dagsins í dag beri Hekla höfuð og herðar yfir önnuð umboð með 56,09% af heildarmarkaði. Það umboð sem næst komi sé með 18,63% skerf.

Bílar frá Heklu eru þeir mest seldu í flokki tengiltvinn- og metanbíla en þegar kemur að hreinum rafmagnsbílum vermir Volkswagen annað sætið með 26% nýrra rafbíla.

Hlutdeid Heklumerkja í markaði fyrir nýskráðra tengiltvinnbíla það sem af er ári er 61,5%.    Söluhæsti tengiltvinnbíllinn á Íslandi er Mitsubishi Outlander PHEV en tæp 39% allra seldra bíla sem ganga fyrir bæði rafmagni og bensíni eru af þeirri tegund. Volkswagen er með rúmlega 13% markaðshlutdeild.

„Forskot Heklu er þó mest áberandi í flokki metanbíla en hver einn og einasti metanbíll sem fluttur hefur verið til landsins það sem af er ári kemur frá vörumerkjum Heklu sem þýðir 100% markaðshlutdeild. Skoda er þar með 66% allra seldra metanbíla en Volkswagen og Audi fylgja þar á eftir,“ segir í upplýsingum frá Heklu.

mbl.is