Spöruðu samfélaginu 420 milljarða evra

Hraðamælar í Frakklandi eru með ýmsu móti. Hér eru mælar …
Hraðamælar í Frakklandi eru með ýmsu móti. Hér eru mælar sem reikna út meðalhraða á tilteknum vegarkafla, sem oftast er nokkrir kílómetrar að lengd.

Rannsóknarstofnun um þjóðvegaöryggi í Frakklandi (ONISR) hefur komist að þeirri niðurstöðu, að tilkoma og ört aukin útbreiðsla hraðamyndavéla og hraðaratsjáa meðfram vegum hafi haft í för með sér 420 milljarða evra  sparnað fyrir samfélagið frá og með árinu 2002.

Lætur nærri að þessi sparnaður jafngildi 52.000 milljörðum íslenskra króna, að sögn ONISR.

Ráðið segir að 180 milljarðar evra hafi sparast vegna mannslífa sem hraðamælarnir hafi bjargað. Aukinheldur hafi ratsjárnar sparað 240 milljarða sem kostað hefði að vista, hjúkra og lækna slasaða á spítölum.

Sérfræðingar ONISR reiknuðu út að hraðamælarnir hafi bjargað alls 53.142 mannslífum á frönsku vegunum á 15 ára tímabili frá 2002 til 2017.

Að mati stjórnvalda er hvert mannslíf í Frakklandi að verðmæti 3,4 milljónir evra, eða sem svarar til um 420 milljóna króna, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Le Parisien í forliðinni viku. Slasaður einstaklingur sem þurft hefði að leggjast inn á sjúkrahúsa vegna meiðsla sinna hefði kostað samfélagið 420.000 evrur, en þá er talið með lækniskostnaður, tryggingarbætur og kostnaður fyrirtækja af fráveru viðkomandi úr vinnu.

mbl.is
Loka