Fyrir fáeinum vikum kom fjórhjóladrifni rafbíllinn Jaguar I-Pace fram á sjónarsviðið eins og stormsveipur. I-Pace er fyrsti 100% rafbíll Jaguar og kynnir BL við Hestháls bílinn á sérstakri sýningu á morgun, laugardaginn 3. nóvember, milli kl. 12 og 16.
Þar geta áhugasamir meðal annars bókað tíma í reynsluakstur á frumgerðum I-Pace. Fjölmargir hafa nú þegar lagt inn pöntun fyrir I-Pace hjá BL sem hefur afhendingu á fyrstu sölubílunum í mars.
Jaguar I-Pace hefur allt að 470 km drægi við venjubundna daglega notkun í ECO-stillingu samkvæmt nýja mælistaðlinum WTPL. I-Pace er búinn tveimur rafmótorum sem saman skila um 696 Nm togi og er hann aðeins 4,8 sek. í hundraðið.
„Vegna straumlínulögunar, háþróaðs fjórhjóladrifs og lágs og miðlægs þyngdarpunkts steinliggur bíllinn eins og sönnum sportbíl sæmir. Vegna snjalltækni I-Pace og þráðlausrar nettengingar er það ætlun Jaguar að hægt verið að hlaðið sjálfkrafa niður uppfærslum á hugbúnaði fyrir stjórnkerfi I-Pace,“ segir í tilkynningu.
Breti bíll ársins 2019 í Þýskalandi
Jaguar I-Pace var í síðustu viku kjörinn „Bíll ársins 2019“ í Þýskalandi að undangenginni prófun á 59 öðrum bílamódelum. Þjóðverjar kusu I-Pace „vegna byltingarkennds samspils aksturseiginleika, afkasta og hönnunar.“
Þess má geta að nýlega lögðu stjórnendur breska bílaþáttarins Top Gear hjá BBC mat á rafbílana á breska markaðnum. Eftir ítarlegar prófanir á tíu helstu bíltegundunum komust þeir að þeirri niðurstöðu að fyrir sitt leyti væri I-Pace án efa sá besti.