Hlaupahjól í bann á gangstéttum

Það er vandaverk að aka hlaupahjóli á gangstéttum, innan um …
Það er vandaverk að aka hlaupahjóli á gangstéttum, innan um gangandi vegfarendur, eins og hér má sjá í París. AFP

Rafknúnum hlaupahjólum hefur fjölgað mjög hratt í stórum frönskum bæjum og borgum undanfarin misseri. Nú hefur verið bannað, að viðlagðri sekt, að aka þeim á gangstéttum í París.

Þar sem og annars staðar þótti sem gangandi vegfarendur væru í vissri hættu vegna hlaupahjólanna sem sóttu mjög upp á gangstéttar í stað þess að halda sig á götunum.

Skort hefur þótt á reglum um notkun rafhlaupahjóla sem orðin voru algeng á götum úti í stærri bæjum Frakklands. Í París hafa til að mynda verið stofnuð minnst fjögur fyrirtæki sem leigt hafa hjól af þessu tagi út, en hlaupahjólin hafa gert notendum kleift að skutlast á talsverðum hraðamilli bæjarhluta.

Var í vikunni lagt bann við notkun þessara litlu rafdrifnu farartækja á gangstéttum og göngugötum Parísar. Því ættu gangandi vegfarendur að vera hólpnir.

Sá sem bannið brýtur og verður gómaður við þá iðju má gera ráð fyrir að verða sektaður á staðnum um 135 evrur, eða sem svarar tæpum 19.000 krónum.

Rafhlaupahjólin ná venjulega allt að 25 km/klst hraða og geta því verið fremur hættuleg á gangstéttum og stígum. Til marks um það þá slösuðust 284 manns í árekstri gangandi vegfarenda og litlu og snöggu farartækjanna í París í fyrra, 2017.

mbl.is