Rekstrarráð Volkswagen mun hittast á föstudag til að greiða atkvæði um tillögur um yfirgripsmiklar breytingar sem gætu leitt til þess að stærsti bílaframleiðandi heims flýtti áætlunum sínum um að auka framboðið á rafmagnsbílum.
Handelsblatt hefur eftir tveimur heimildarmönnum sem þekkja til málsins að stjórnendur félagsins vilji endurnýja tvær bílaverksmiðjur Volkswagen í Þýskalandi; aðra í Emden og hina í Hannover, svo að þar verði hægt að hefja framleiðslu rafmagnsbíla í upphafi næsta áratugar.
Það er ekki bara formsatriði að stjórnin veiti tillögunum blessun sína því fulltrúar valdamikilla verkalýðsfélaga starfsmanna VW – sem ráða yfir helmingi sætanna í stjórninni – hafa verið óhressir með sumt af því sem fyrirtækið vill gera, s.s. að færa hluta af þeirri smíði sem í dag fer fram í Þýskalandi yfir til Tékklands.
Nýja áætlunin – sem kann líka að fela í sér að hagnaðarmarkmiðum félagsins verði breytt – er einnig tækifæri fyrir Herbert Diess, sem tók við stöðu forstjóra í apríl, að setja mark sitt á samsteypuna.
Volkswagen framleiðir bíla af gerðinni Passat og Arteon í Emden en þar starfa meira en 8.000 manns. Eru sum þessara starfa í hættu því að sala Passat-bifreiða hefur gengið erfiðlega. Einn viðmælandi lýsti tyrkneska markaðinum – sem er mikilvægur fyrir þennan fernra dyra bíl – á þá vegu að hann væri í „frjálsu falli“ og salan í september hefði dregist saman um 68% frá sama mánuði í fyrra.
Tveir heimildarmenn hafa upplýst að stjórnendur VW telji að ef ekki eigi að verða röskun á starfseminni í Emden og Hannover þurfi að færa flóknari framleiðslu bíla með sprengihreyfilsvél, sem kalla á fleiri vinnustundir að smíða, yfir til Tékklands þar sem launakostnaður er lægri.
Væri þá hægt að laga þýsku verksmiðjurnar að framtíðarþörfum bílamarkaðarins með þeim búnaði sem þarf til að smíða rafmagnsbíla, en því er spáð að sprenging muni verða í sölu þeirra. Að skipta yfir í framleiðslu rafbíla myndi minnka þörfina fyrir vinnuafl enda eru, samkvæmt greiningum Goldman Sachs, þriðjungi færri íhlutir í rafmagnsbíl en hefðbundnum bíl.
Stjórnendurnir gera sér grein fyrir því að færsla yfir í framleiðslu rafbíla mun þýða að fækka þarf starfsfólki, að því er einn heimildarmaður greinir frá, en vilja ráðast í niðurskurðinn með ábyrgum hætti svo að þeir tugir þúsunda starfsmanna félagsins sem eru í eldri kantinum geti sest í helgan stein frekar en þeim verði sagt upp störfum.
Lagt hefur verið til að búa verksmiðjuna í Emden undir smíði ódýrasta bílsins í ID-línu Volkswagen. Hönnun bílsins er ekki lokið að fullu en hann ætti að vera á marga vegu sambærilegur við VW Polo. „Markmiðið er að bjóða upp á rafmagnsbíla sem eru svipaðir þeim bílum sem fólk er vant að sjá á götunum í dag,“ segir heimildarmaður.
Verksmiðjuna í Hannover, sem í dag framleiðir sendibíla, mætti uppfæra svo að hún réði við smíði bæði rafmagns- og sprengihreyfilsbíla, þar á meðal smíði ID Buzz-smárútunnar sem svipar til gamla VW-„rúgbrauðsins“ í útliti.
Þykir líka heppilegt að framleiða rafmagnsbíla í Emden og Hannover vegna þeirrar stefnu þýskra stjórnvalda að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis.
Gætu borgirnar tvær séð fram á sams konar breytingar og eiga sér núna stað í verksmiðjunni í Zwickau í Saxlandi sem er verið að umbreyta svo að þar megi hefja framleiðslu á fyrsta bílnum í ID-línunni seint á næsta ári.
Þrír heimildarmenn segja að Volkswagen finni sig knúið til að flýta fyrir orkuskiptum í ljósi þeirrar stefnu ESB að minnka kolefnislosun um 40% fram til ársins 2030.
VW mun ráðstafa 20 milljörðum evra í framleiðslu 50 gerða af rafbílum og 30 gerða af tengiltvinnbílum fram til ársins 2025. Þá verða 50 milljarðar evra til viðbótar notaðir til að tryggja nægjanlegt framboð af rafhlöðum. Er ætlunin að árið 2025 muni fyrirtækið selja að jafnaði 2-3 milljónir rafmagnsbíla ár hvert.