Irv Gordon lést í Kína á fimmtudaginn, 78 ára að aldri. Hann var heimsfrægur fyrir að hafa keyrt Volvo-inn sinn meira en fimm milljónir kílómetra, meira en 3,4 milljónir mílna. Bíllinn var 1966 árgerð af Volvo P1800.
Gordon átti sér aðdáendahóp víða um veröld en hann setti heimsmet árið 1998 fyrir mest keyrða bílinn, sem enn er í eigu síns upprunalega eiganda. Þá var bíllinn keyrður helmingi skemur en hann var nú við ævilok Gordon.
Gordon keypti bílinn úr kassanum árið 1966. Árið 2002 náði Gordon tveimur milljónum mílna og það var árið 2013 sem hann komst aftur í heimsfréttir fyrir að ná þremur milljónum mílna. Nú síðast í september í ár sagði Gordon að vegalengdin væri orðin 3,4 milljónir mílna.
Gordon náði að keyra bílnum í öll ríki Bandaríkjanna en dreif að endingu ekki til Havaí. Hélt hann vélinni við af kostgæfni og lét aðeins endurgera hana tvisvar, síðast 2011. Á síðari árum fór Gordon í margvíslegt samstarf við Volvo fyrir viðburði tengda þessum bíl.