Þegar kemur að því að finna rétta bílinn er tónlistarfólk oft með allt aðrar þarfir og áherslur en gengur og gerist. Tómas Jónsson hljómborðsleikari þurfti t.d. nýlega að kaupa bíl sem gæti rúmað heilt Hammond-orgel. „Ég seldi flygil, fór með helminginn af peningnum og keypti lítinn Citroën Berlingo sendibíl, árgerð 2005, og ók svo beinustu leið að kaupa orgelið fyrir afganginn,“ segir hann og bætir við að Hammond-orgel séu plássfrek hljóðfæri sem þurfi töluverða lofthæð. „Og það gengur varla að þurfa að hóa í sendibíl fyrir hverja tónleika enda myndi það annaðhvort valda því að ég notaði orgelið sárasjaldan, eða þyrfti að eyða háum fjárhæðum í flutningana.“
Þrátt fyrir ungan aldur er Tómas búinn að koma sér rækilega á kortið í íslenska tónlistarheiminum. Hann hefur m.a. látið að sér kveða á djass-senunni og mun troða upp í Björtuloftum í Hörpu á miðvikudag, 21. nóvember, með tríói sínu. Tónleikarnir eru hluti af tónleikaröð djassklúbbsins Múlans og hefjast kl. 21.
Eins gaman og það er að hlusta á góðan djass á bak við stýrið þá virðist leitun að góðum djasslögum sem fjalla um bíla. Tómas segir djassara samt ekki áhugalausa um bifreiðar og er skemmst að minnast Miles Davis sem átti ágætis safn af Ferrari-sportbílum. „Svo veit ég að ófáir íslenskir djasstónlistarmenn hafa tekið ástfóstri við litlu Subaru-sendibílana, „bitaboxin“ eins og þeir eru kallaðir, og þurfa jafnvel að kaupa þrjá til að geta tekið úr þeim það sem enn virkar til að gera einn góðan og gangfæran.“
Sjálfur hefur Tómas það fyrir áhugamál að skoða hvaða ódýru bíla má finna til sölu á netinu. „Mér leiðist að horfa á Top Gear og heimsæki sjaldan bílasölur, en grúska í staðinn í ódýrum bílum á netinu og þá aðallega með það fyrir augum að finna bíla sem gætu hentað fólkinu í kringum mig. Svo finnst mér eldri og ódýrari bílar líka einfaldlega miklu fallegri en þessir nýju.“
Virðist Tómas sérstaklega veikur fyrir kassalaga bílum, og honum þykja bílar þeim mun fallegri sem þeir hafa fleiri hvöss horn. Bíll villtustu drauma djasstónlistarmannsins er því ekki trylltur Koenigsegg eða gullhjúpaður Bentley heldur einfaldlega gamall Volvo-skutbíll: „Rauður Volvo 240-skutbíll er að mínu mati hinn fullkomni bíll – og lítur út alveg eins og börn myndu teikna bifreið. Að vísu er þakið ekki nógu hátt til að koma megi fyrir Hammond-orgeli í skottinu.“
Litli Borgarbíllinn er Trabant 601. Fremur smá bifreið sem rennur í flest stæði en er afspyrnu falleg um leið.
Hinn fullkomni íslenski hversdagsbíll: Ég held ég verið að velja fjölskyldubíllinn okkar, Subaru Forester árger 2008. Við erum fimm manna fjölskylda og búum í Þorlákshöfn. Unnusta mín vinnur í bænum daglega og elsta stelpan er í menntaskóla í reykjavík svo við erum alltaf að þvælast á milli. Subaruinn er hár og fjórhjóladrifinn og plássmikill. Enginn vandi að henda barnavagni í skottið og það fer þokkalega um þrjá aftur í með barnastól.
Fíni bíllinn væri Mercedes Benz 280 S enda finnst mér hann með glæsilegri ökutækjum. Stíllinn á þessum bílum hélst ansi lengi en ég held að ég myndi velja módel frá 8. áratugnum.
Fyrir lottóvinninginn: Mercedes Benz G class 1979. Þessir þykja mér ferlega gæjalegir. Kosta eflaust skilding, bæði kaup og rekstur.
Í viltustu draumum: Hér langar mér að velja Volvo 240 station, raðuann og fjögurra gíra. Kannski ekki svo viltur draumur en þennan bíl hefur mig alltaf langað í. Það ætti að vera mynd af honum í orðabókinni þar sem stendur”bíll” eða “bifreið” eða “sjálfrennireið”. Ég ætlaði að eignast svoleiðis bíl þegar ég fékk bílpróf en fann engan í nógu góðu ásigkomulagi.
Sunnudagsbíllinn: Volvo Amazon, árgerð 1968.Þessi er alveg einstaklega fallegur. Og ætti kannski að fá þá virðingu að vera alltaf skínandi hreinn og keyrður á sunnudögum eftir pönnukökur.
Mótorhjólið: Ég held ég skjóti á Honda CB 550 með hliðarvagni. Ég hef ekkert vit á mótorhjólum og lítinn áhuga í sjálfu sér. Ég átti þó mótorkross-hjól í gamladaga. Myndi samt einhvernveginn ekki láta mér detta það í hug að stíga á bak á slíku í dag.
Ómissandi ökutækið: Vinnubíllinn minn; Citroen Berlingo frá 2005. Ég keypti hann utan um Hammond L122 orgel og Leslie Box. Ég nota mikið af stórum og gömlum græjum í mínu starfi og er sendibíllinn orðinn algjört þarfaþing. Ég man eftir tólf hljómleikum sem ég hef notað þetta Hammond orgel síðan ég keypti bílinn fyrir einum og hálfum mánuði. Ég dýrka það hvað það er lítið mál.
Myndir:
Trabant: Wikipedia / Matej Bat‘ha (CC)
Subaru Forester: Wikipedia / OSX (CC)
280 S : Flickr / Niels de Wit (CC)
G-Class: Wikipedia / High Contrast (CC)
Volvo 240: Wikipedia / Mr. Choppers (CC)
Volvo Amaon: Wikipedia / Niels de Wit (CC)
Honda CB 550: Flickr / Erguns (CC)
Citroen Berlingo: Wikipedia / Matthias93 (CC)