Rafbílar tappa ekki einvörðungu rafmagn úr dreifikerfinu heldur eru þeir líka á góðri leið með að verða að hreyfanlegum orkuverum er skili orku aftur inn á dreifikerfið.
Verkefni af því tagi hefur hafið göngu sína í Þýskalandi með þátttöku Nissan Leaf. Rafgeymar rafbílanna eru því þess megnugir að gera meira en bara flytja fólk frá einum stað til annars. Þeir geta sem sagt virkað líka sem orkuforðabúr sem taka má straum úr í þágu jafnvægis og álagsminnkunar í dreifikerfinu.
Í Þýskalandi hefur fyrirtæki að nafni The Mobility House fengið leyfi til að selja orku af bílrafgeymum inn á hið almenna rafdreifikerfi landsins og koma upp nauðsynlegum búnaði til þess.
Meðal annars hefur þetta fyrirtæki, sem að hluta til er í eigu móðurfélags Mercedes-Benz, Daimler, samið við Nissan um að ryðja brautina en síðar munu aðrir bílsmiðir bætast í hópinn. Nissan hefur langa reynslu af svona lausnum sem verið hafa í notkun í Japan. Hafa þær nú verið viðurkenndar í Þýskalandi, að sögn fréttastofu Reuters.
Tæknin til þess að endurnýta rafbílaorku nefnist V2G, sem er stytting fyrir enska hugtakið „Vehicle to Grid“, og með henni má skila rafstraum bílanna aftur inn á dreifikerfið. Segir fréttastofan að Nissan vonist til að V2G-þjónustan verði komin á góðan rekspöl í Þýskalandi á næsta ári. Fyrst um sinn ganga fyrirtæki og bílaflotar þeirra fyrir og ekki hefur á þessu stigi verið ákveðið hvenær einkaaðilar fá aðgang að V2G-kerfi Nissan í Þýskalandi, að sögn þýsku vefsíðunnar electrive.net.
Verkefni í svipuðum dúr og það sem hér um ræðir eru í undirbúningi víða í Evrópu, m.a. bæði í Bretlandi og Danmörku.