Næsta kynslóð af Opel Corsa verður rafbíll og mun tæknileg þróun bílsins vel á veg komin. Hann mun grundvallaður á stallbróður sínum DS3 Crossback e-Tense.
Þá má víst segja að með nýjum Corsa verði þráðurinn tekinn upp sem spunninn var með GT X-hugmyndabílnum. Mun Corsa njóta sama undirvagns og Crossback e-Tense.
Breytingaferlinu eftir sölu Opel til frönsku bílasamsteypunnar Peugeot-Citroen mun nú lokið og er hönnun og þróun nýs Corsa unnin á vettvangi samsteypunnar. Allar áætlanir miða við að bíllinn nýi komi á götuna á næsta ári.
Corsa hefur verið dýrmætasta merki Opel allt frá fyrstu útgáfunni sem kom á götuna 1982. Því þykir eðlilegt að hann verði í þungamiðju í rafvæðingu fólksbíla Opel. Á næsta ári verður hafin framleiðsla á tengiltvinnútgáfu af tvinnbílnum Grandland X. Hann verður 300 hestöfl og með drif á öllum hjólunum fjórum og verður systurmódel Peugeot 3008.
Því næst tekur við framleiðsla á hreinum rafbílaútgáfum af Mokka X og svo Vivaro árið 2020.