Leaf á leið á toppinn

Nissan Leaf er að verða mest selda bílamódelið í Noregi …
Nissan Leaf er að verða mest selda bílamódelið í Noregi 2018.

Undanfarin tólf ár hefur Volkswagen Golf verið mest selda bílamódelið í Noregi. Allt stefnir í að það taki enda í ár og að hreini rafbíllinn Nissan Leaf setjist á toppinn  í staðinn.

Frá áramótum til nóvemberloka voru nýskráð 11.584 eintök af Leaf og 8.778 af Golf. Munurinn þykir of mikill til að Golf haldi toppsætinu.  

Að sögn blaðsins Agderposten verður að fara aftur til ársins 2005 til að finna annan bíl í toppsæti lista yfir nýskráningar bíla í Noregi. Þá var Toyota Corolla í fyrsta sæti, síðan Golf þar til í ár.

Nissan hafði afhent 37.000 Leaf til Evrópu til nóvemberloka og þar af fóru um 12.000 til Noregs. Nýjasta útgáfan af Leaf kom á markað í Noregi í febrúar sl. Þá hefur umboðið þar í landi getað selt og afhent bíla með litlum biðtíma, ólíkt mörgum öðrum umboðum.

Sölutölurnar fyrir Leaf eiga við um hann einan í fjórum mismunandi útgáfum eftir búnaði. Tölurnar fyrir Golf ná hins vegar bæði til rafútgáfunnar, tengiltvinnútgáfunnar, bensínbíl, dísilbíl, langbak og fjölnotabíl. Af heildinni eru þó 70% bílanna rafbílar.

mbl.is