Skella sér á fullt í rafbílasmíði

Bílsmiðja Volkswagen í Zwickau verður miðstöð rafbílasmíði fyrirtækisins.
Bílsmiðja Volkswagen í Zwickau verður miðstöð rafbílasmíði fyrirtækisins.

Volkswagen hefur ákveðið að skella sér af fullum krafti í þróun og smíði rafbíla. Bílsmiðjunni í Zwickau verður breytt fyrir smíði hreinna rafbíla með afkastagetu upp á 330.000 eintök á ári.

Smíði rafbíla hefst í Zwickau á næsta ári, fyrst með framleiðslu litla rafbílsins ID. Sá fyrsti er væntanlegur af færiböndunum í nóvember 2019.

„Upphaf smíði ID.1 eftir 12 mánuði mun marka þáttaskil og nýjan kafla í sögu Volkswagen. Líkja má því við komu fyrstu Bjöllunnar og fyrsta Golfsins,“ segir Thomas Ulbrich, sem fer með málefni rafrænna farartækja í framkvæmdastjórn VW.

Volkswagen mun fjárfesta fyrir 1,2 milljarða í breytingunum á starfsemi bílsmijunnar í Zwickau. Samkvæmt áætlunum eiga afköst smiðjunnar að vera komin í 1.500 bíla á dag í ársbyrjun 2021. Markmið VW er að rafbílasmíði fyrirtækisins verði komin í milljón bíla á ári 2025.

mbl.is