Fyrsti tvinnbíll Subaru

Subaru Crosstrek.
Subaru Crosstrek.

Subaru heimsfrumsýndi tvinnbílinn Crosstrek Hybrid á bílasýningunni í Los Angeles og mun hann koma á markað í Bandaríkjunum fyrir áramót.

Búast má við að samskonar, ef ekki sama, drifrás verði í XV bílnum þegar hann kemur með tvíaflsrás, en Crosstrek er hin bandaríska útgáfa af Subaru XV.

Rafdrifsbúnaður Crosstrek er fenginn frá Toyota en Subaru notar hins vegar sínar eigin boxervélar, gírkassa og fjórhjóladrif. Bensínvélin er 137 hestafla og togið 181 Newtonmetrar. Afl rafmótorsins er  118 hestöfl og togið 202 Nm.

Rafgeymirinn og það sem honum tilheyrir er sá hinn sami og í tengiltvinnbílnum Prius. Gefur Subaru upp að drægi bílsins á rafmagni einu saman sé 27 kílómetrar, sem er aðeins helmingur þess sem Toyota gefur upp.

Crosstrek hefur það fram yfir Prius tengiltvinnbílinn að hann getur dregið aftanívagn. Hámarksþungi dráttarins má þó aldrei vera meiri en 450 kíló.

mbl.is