Ævintýraferðir og akstursskólar

Unnendur Jeep halda hálfgert ættarmót ár hvert og læra þar …
Unnendur Jeep halda hálfgert ættarmót ár hvert og læra þar torfæruakstursfimi.

Þeir sem hafa brennandi ástríðu fyrir bílum, og hafa verið duglegir að spara, geta fengið að læra kappakstur á mörghundruð hestafla tryllitækjum eða skoðað fallega náttúru framandi landa úr þægilegu ökumannssæti kröftugs lúxusjeppa.

Það fór ekki mjög hátt en í nóvember kom stór floti Bentley-lúxusjeppa til Íslands og sást hersingin á ferðinni hér og þar um landið. Um var að ræða ferð á vegum breska bílaframleiðandans og fengu þátttakendur að aka margra tugmilljóna Bentayga-jeppum á milli helstu náttúruperlna Íslands, gista á landsins bestu hótelum og gera vel við sig í mat og drykk hvert einasta kvöld.

Bentley er fjarri því eini bílaframleiðandinn sem býður upp á upplifun af þessum toga, og ef að er gáð þá skipuleggja margir framleiðendur einhvers konar ferðalög eða ökuskóla sem eru öllum opnir. Það sem meira er: verðið kemur stundum skemmtilega á óvart, og draumurinn um að tæta gúmmíið á kappakstursbraut eða fara í milljónamæringa-bíltúr er innan seilingar fyrir flesta.

Hér að neðan er dæmi um nokkra áhugaverða pakka sem í boði eru, en þessi listi er fjarri því tæmandi:

Með Bentley til Bólivíu

Bentley Bentayga lúxusjeppinn öslar elginn í íslenskri á í vetur.
Bentley Bentayga lúxusjeppinn öslar elginn í íslenskri á í vetur.


Í næstu ævintýraferð Bentley er stefnan sett á Bólivíu og Síle í Suður-Ameríku. Dagskrá ferðarinnar liggur ekki fyrir að svo stöddu en reikna má með viðkomu í rennisléttum salteyðimörkum og að gist verði á bestu hótelunum sem löndin hafa upp á að bjóða. Leiðsögumenn fylgja hópnum og er ekið á Bentayga-jeppum. Ferðin kostar 19.000 evrur á mann, um 2,6 milljónir króna eða álíka mikið og gott Rólex-úr, og er flug til og frá upphafs- og endastöð ekki innifalið.

Ferðin til Íslands var töluvert ódýrari, og kostaði um 17.000 pund fyrir parið, eða u.þ.b. 2,6 milljónir. Sú ferð varði í sex daga og var m.a. gist á lúxushotelinu við Bláa lónið, ekið upp að Gullfossi og Geysi og gist á Ion-hótelinu, farið að Húsafelli á þriðja degi, um Snæfellsnes á þeim fjórða til Reykjavíkur á fimmta deginum þar sem gist var á Hótel Borg, og flogið heim á sjötta degi.

Til að setja þessi verð í samhengi er ágætt að muna að á þeim fáu stöðum sem hægt er að fá Bentayga á leigu má reikna með að dagurinn kosti á bilinu 80-150.000 kr og því ljóst að þeir sem fóru í Íslandsferðina fengu mikið fyrir peninginn.

Nánari upplýsingar má finna á events.bentleymotors.com.

Alpatúr með McLaren

Það væri ekki amalegt að læra kappakstur á sportbíl frá …
Það væri ekki amalegt að læra kappakstur á sportbíl frá McLaren.


Sportbílaframleiðandinn McLaren starfrækir kappakstursskóla sem er öllum opinn. Ferðast skólinn á milli staða og var t.d. í Silverstone í október og Bahrain í nóvember. McLaren skaffar bílinn (þó fólk megi mæta með sinn eigin McLaren og fær þá afslátt), og hægt að taka bæði langt og stutt ökunám; allt frá hálfum degi upp í þriggja daga dagskrá sem veitir réttindi til að keppa á mótum sem McLaren stendur fyrir.

Ódýrasta námskeiðið kostar 1.095 pund, eða um 170.000 kr, og eru innifaldar þrjár 20 mínútna lotur á kappakstursbraut með sérhæfðum hraðaksturskennara.

McLaren skipuleggur líka ævintýralega bíltúra, t.d. um óspillta náttúru Kanada og um Svissnesku alpana. Hjá McLaren fengust þær upplýsingar að næsta hópferð hafi ekki enn verið staðfest en reikna má með að hún kosti um 35.000 pund fyrir hvert par, eða um 5,4 milljónir króna.

Frekari upplýsingar eru á slóðinni cars.mclaren.com/experiences

Spanað með Audi

Audi er með alls kyns akstursnámskeið í boði, víða um …
Audi er með alls kyns akstursnámskeið í boði, víða um heim.


Audi starfrækir kappakstursskóla víða um heim og býður þátttakendum t.d. að aka á fleygiferð um Nürburgring í Þýskalandi eða Silverstone-kappakstursbrautina í Bretlandi. Dagurinn á Nürburgring á Audi R8 sportbíl kostar 1.600 evrur á mann (220.000 kr), og líka í boði að fá R8 að láni til að fara í ferðalag um Svissnesku alpana og fagrar ítalskar sveitir.

Fjögurra daga og þriggja nátta ferðalag frá München til Verona, Gargnano og aftur til baka kostar 2.650 evrur fyrir einstakling og 2.330 á mann ef tveir eru í herbergi.

Vetrarfjör með Volkswagen

Það er afskaplega gaman að leika sér á kröftugum bíl á snjó og ís. Volkswagen býður upp á vetrarakstursæfingar á Golf R í bænum Arvidsjaur í Svíþjóð. Gist er í tvær nætur á fjögurra stjörnu hóteli og þátttakendum skaffaður morgunverður, hádegisverður og kvöldverður en tveir eru um hvern bíl.

Kennarar fara yfir grunnatriði hraðaksturs í hálku og gerðar eru æfingar á þremur mismunandi brautum. Þá er hægt að bæta við ferðina spani á vélsleðum, hundasleðaferðum og elgs-safarí, sé þess óskað.

Verðið er 2.650 evrur á mann, um 370.000 kr, og er innifalið flug frá Stuttgart eða Hannover.

Sumarbúðir fyrir vini Jeep

Bandaríski jeppaframleiðandinn heldur árlegt mót fyrir eigendur Jeep bifreiða: Camp Jeep. Viðburðurinn færist á milli staða og var t.d. á þessu ári nálægt bænum Spielberg í Austurríki, en þar á undan í Berlín, og hjá Barselóna í hitteðfyrra. Á meðan á hátíðinni stendur er starfræktur Jeep-torfæruaksturskóli frá morgni til kvölds, og hægt að taka hring á krefjandi akstursbrautum sem sýna bæði hvað í bílnum og ökumanni býr.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: