Nýr Rexton, lúxusjeppi frá SsangYong, verður frumsýndur hjá Bílabúð Benna, á Krókhálsi, á morgun, laugardaginn 12. janúar.
„Það er alkunna að markaðshlutdeild jeppa hefur vaxið umtalsvert undanfarin ár og samkeppnin þeirra í milli verið hörð. Því vekur alltaf athygli þegar gagnrýnendur fella sína dóma um þá. Eitt þekktasta fagritið um jeppa, 4X4 Magazine, hefur valið SsangYong Rexton sem besta fjóradrifna bíl ársins,“ segir í tilkynningu.
Þar kemur fram, að ekkert hafi verið til sparað við hönnun nýs SsangYong Rexton.
„Rexton er einn fárra jeppa í dag sem byggður er á grind, með læstum millikassa og lágu drifi,“ segir Gestur Benediktsson, sölustjóri hjá Bílabúð Benna. „Við hlökkum til að sýna þennan magnaða Rexton, það er ljóst að ríkulegur staðalbúnaður, alhliða eiginleikar sem og verðið á Rexton eiga eftir að koma jeppaunnendum þægilega á óvart.“
SsangYong Rexton, 4X4 jeppi ársins, verður sýndur í hinum ýmsum útfærslum, ásamt búnaði frá Fjallakofanum, Veiðihorninu, Markinu, Stormi og Útilegumanninum. Sýningin stendur frá kl. 12 til 16.