Spanað án þess að gera dýrum nokkurt mein

Við hönnun Audi e-Tron GT hugmndabílsins var þess gætt að …
Við hönnun Audi e-Tron GT hugmndabílsins var þess gætt að í honum væri ekki að finna neinar dýraafurðir.

Þó að formlegar tölur liggi ekki fyrir bendir margt til að æ stærri hópur landsmanna reyni að sneiða hjá neyslu og notkun dýraafurða. Í Facebook-hópnum Vegan Ísland eru núna nærri 22.000 meðlimir og greinilegt að margir eru áhugasamir um að láta dýraafurðir í friði, þó að ekki séu allir í hópnum búnir að taka stökkið,

„Ætli það séu ekki töluvert færri sem sleppa dýraafurðum með öllu – sennilega nær 5.000 manns á hér á landi,“ segir Benjamín Sigurgeirsson, formaður Samtaka grænkera á Íslandi.

Benjamín segir að hver og einn nálgist grænkera-lífsstílinn á sinn hátt. Sumir láti nægja að sleppa kjöti en borða áfram fisk, sumir sleppi eggjum og mjólkurafurðum líka, og svo sé allstór hópur sem fari þá leið að sleppa dýraafurðum nokkra daga í viku. „Ef markmiðið er að stuðla að velferð dýra munar um allar lífstílsbreytingar í þessa átt, og væri t.d. mikið áunnið með því bara að 10.000 manns skiptu kjötmáltíð út fyrir vegan-máltíð einu sinni eða tvisvar í viku,“ útskýrir hann. „Til að kalla sig vegan eða grænkera reynir maður hins vegar eftir fremsta megni að sleppa öllum dýraafurðum.“

Leðrið er ekki aukaafurð

Margir grænkerar fjarlægja því dýraafurðir ekki aðeins úr í mataræði sínu heldur reyna að nota ekki dýraafurðir í sínu daglega lífi, og er það þar sem bílarnir koma inn í myndina: „Sumir grænkerar vilja t.d. ekki nota fatnað úr leðri eða ull,“ segir Benjamín.

Þegar kemur að bílum gæti grænkerinn því lagt á það áherslu að velja ökutæki sem ekki er með leðurinnréttingu. Er heilmikið leður notað í innréttingar bíla og sem dæmi þarf ein Rolls-Royce-bifreið leður af tólf dýrum. „Sumir reyna að halda því fram að leðrið sé aukaafurð af kjötframleiðslu og auki því ekki á þjáningu dýra, en nánari skoðun leiðir í ljós að oft eru leðurinnréttingar og leðurfatnaður gerð úr húðum nautgripa sem hafa verið ræktaðir sérstaklega vegna leðursins og ekki vegna kjötsins. Þá er leðrið arðbær hluti af viðskiptamódeli búfjárræktunar og ýtir notkun á leðri þannig undir ræktun dýra til manneldis.“

Er ekki allt upp talið með innréttingunni, því efni sem unnin eru úr dýrum má t.d. finna í sumum tegundum bíldekkja, í litarefnum og trefjum, gúmmílistum og rörum, og jafnvel að feiti úr dýrum hafi verið notuð til smurningar við vinnslu álsins og stálsins sem fer í bílinn.

Ýmsir góðir kostir í boði

Bílablaðið hafði samband við bílaumboðin og kom í ljós að víða eru dýravænir kostir fáanlegir. Japanskir bílaframleiðendur eru t.d. gjarnir á að hafa það sem staðalbúnað ellegar valkost að fá innréttingar úr tauáklæði frekar en leðri, og hágæða gervileður einnig inni í myndinni. Toyota býður m.a. upp á Prius með SofTex-áklæði sem er gerviefni mjög líkt leðri en andar betur, og Lexus notar Nuluxe gervileður sem framleitt er með umhverfisvænum hætti.

Gervileiður í hæsta gæðaflokki er staðalbúnaður í grunnútgáfum C-Class og E-Class og kalla þeir hjá Benz efnið „Artico“ sem stendur fyrir „artificla cow“. Breski lúxusbílaframleiðandinn Ranger Rover bauð síðan í fyrsta skipti upp á leðurlausa innréttingu sem valkost fyrir Velar sportjeppann.

Þá má má velja vegan-innréttingar í flestar gerðir bíla frá Volkswagen. Hugmyndabíllinn Audi e-Tron GT sem nýlega var frumsýndur í Los Angeles er dýraafurðalaus frá A til Ö, og margar gerðir Audi-bíla eru fáanlegar með dýravænu áklæði. Skoda og Mitsubishi láta heldur sitt ekki eftir liggja, og eru t.d. Mitsubishi-bifreiðar í Invite- og Intense-útfærslum án dýraafurða.

Frá Porsche fengust þau svör að þar mætti ekki enn fá bíla sem væru innréttaðir alveg án dýraafurða, en fyrirtækið leitaði leiða til að bæta úr því enda greinilegt að samræmdist óskum vaxandi hóps neytenda. Bendir Porsche á að þangað til megi lágmarka magn dýraafurða í bílnum með því t.d. að velja bíl með alcantara-innréttingu, en það kann að koma sumum á óvart að lúxusefnið alcantara er gerviefni.

Á fleygiferð án dýraafurða

Gaman er að sjá að grænkeralífsstíllinn og akstursíþróttir virðast eiga ágætis samleið. Nú síðast upplýsti Formúlu 1-kappaksturshetjan Lewis Hamilton að hann neyti ekki lengur dýraafurða en af viðtölum við ökuþórinn má ráða að hann hafi aðallega breytt mataræði sínu til þess að komast í betra form, og að það sé ekki alltaf að auðvelt að forðast dýraafurðir þegar vinnan kallar á endalaus ferðalög heimshornanna á milli. „Ég sakna Nutella, og sakna ákveðinna sælgætistegunda, en núna þegar ég veit hvað er í þessum mat þá finnst mér hann ekki lengur freistandi,“ sagði hann í spjalli við Channel 4 og bætti við að honum hefði aldrei liðið betur í eigin skinni.

Annar áberandi grænkeri í heimi akstursíþrótta er Leilani Münter, sem keppir í NASCAR. Münter er menntaður líffræðingur og mikill náttúru- og dýravinur sem notar tækifærið þegar hún er á kappakstursbrautinni til að láta bíla sína auglýsa góðan málstað, s.s. vefsíðuna VeganStrong.com þar sem fjallað er um kosti dýraafurðalauss mataræðis.

Toyota Prius er einn þeirra bíla sem panta má með …
Toyota Prius er einn þeirra bíla sem panta má með vönduðu gervi-leðri. SofTex ku vera slitsterkt en anda vel.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: