Með kappaksturshetjum og kvikmyndastjörnum

Bílarnir voru fjarri því öruggir þegar Sverrir keppti. Oft mátti …
Bílarnir voru fjarri því öruggir þegar Sverrir keppti. Oft mátti litlu muna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrir þá sem hyggja á glæstan kappakstursferil er ágætt að heyra hjá þeim sem reynt hafa hvernig hlutirnir ganga í raun fyrir sig í þessum heimi. Vissulega er gleðin og spennan mest á meðan kappaksturinn stendur yfir en akstursíþróttafólk þarf að gera margt fleira en að halda um stýrið og ýta á pedalana.

Af mörgum kappaksturshetjum Íslands er óhætt að segja að Sverrir Þóroddsson hafi náð lengst. Árið 1964, þá aðeins 20 ára gamall, hélt hann til Bretlands og keypti sér þar bíl í Formúlu 3-flokki sem þá hét Formula Juniors. Var hann fljótlega kominn á samning hjá kappakstursskólanum Jim Russel Racing og ók sínum bíl undir þeirra nafni.

Eins og gefur að skilja voru akstursíþróttir á Íslandi varla til í nokkurri mynd á þessum tíma en Sverrir hafði stundað það að spana um íslenska malarvegi á Volkswagen Bjöllu og segir hann að sá bíll – þó hann hafi ekki komist mjög hratt yfir – hafi hjálpað honum að læra að hafa góða stjórn á ökutæki. Þá virtist koma sér vel að hafa ekið við erfiðar íslenskar aðstæður því í fyrst kappakstri sínum ók Sverrir á rennblautri og hálli braut og hvern hringinn á fætur öðrum var hann með langtum betri tíma en breskir keppinautar hans.

Var ódýrara en hættulegra

Meðal verkefna Sverris var að aðstoða John Frankenheimer við gerð …
Meðal verkefna Sverris var að aðstoða John Frankenheimer við gerð myndarinnar Grand Prix með James Garner í aðalhlutverki.


Sverrir segir að það hafi kostað töluvert að byrja í íþróttinni, en á móti kom að keppnisbílarnir voru mun ódýrari og einfaldari þá en þeir eru í dag. Hann glímdi við alls kyns vandamál í byrjun, s.s. þegar hann skipti yfir í Brabham-bíl með vandræðavél, en hann lærði af hverjum kappakstri, varð sífellt betri og smám saman fjölgaði sigurtitlunum. Þá mátti oft litlu muna:

„Á þessum tíma var bannað að hafa öryggisbelti í kappakstursbílum, ótrúlegt en satt, og ekki fyrr en 1968 að beltin voru innleidd. Gerðist það í keppni fyrir þann tíma, í Hróarskeldu, að annar bíll fer örlítið út af brautinni, svo að möl kastast í dekk hjá mér og það springur. Við þetta endastakkst bíllinn minn og ég hentist út úr honum, en varð ekki meint af.“

Sverri skolaði á endanum til Ítalíu og var ástæðan einkum að þar voru meiri peningar í akstursíþróttum og verðlaunin veglegri, enda höfðu Ítalirnir gaman af að veðja á niðurstöður kappakstranna rétt eins og ef um væri að ræða veðreiðar. Suður á Ítalíu fékk Sverrir líka að vera í kringum fólk sem í dag er löngu komið á Ólympstind akstursíþróttanna, og snæddi t.d. eitt sinn hádegisverð með Enzo Ferrari, á leið milli landshluta á Ítalíu með Frank Williams. Þá urðu þeir Sverrir og kvikmyndagerðarmaðurinn John Frankenheimer mestu mátar, en Sverrir var fenginn til að aðstoða við gerð kappakstursatriða í mynd hans Grand Prix frá 1966.

Slapp með skrekkinn

Sverrir fékk samning 1967 hjá ítalska framleiðandann De Santis í Róm. Í fyrstu keppni ársins á Monza var hann að taka fram úr fremsta bílnum í keppninni á síðasta hring þegar sá beygði skyndilega í veg fyrir hann og vildi ekki betur til en svo að bíllinn lenti á vegriði á 230 km hraða með þeim afleiðingum að hann gjöreyðilagðist.

Næsta keppni var á Caserta, 200 km fyrir sunnan Róm. Í startinu lenti bíll á Sverri með þeim afleiðingum að afturhjólið brotnaði af. Þetta tjón var Sverri til happs því Caserta-kappaksturinn átti eftir að rata í sögubækurnar sem mikill harmleikur. Tólf bílar lentu í árekstri og þrír bílstjórar létu lífið. „Þetta hræðilega slys var á forsíðu blaða og eitt versta slys í kappakstri til þessa,“ segir Sverrir en tveir nánir vinir hans fórust: Giacomo Russo og liðsfélaginn Romano Perdoni,.

1970 sneri Sverrir til Íslands reynslunni ríkari, stofnaði heildverslun og starfrækti flugfélag um árabil. ai@mbl.is

mbl.is