Vart var hinn splunkunýi Renault Clio kominn af færiböndum bílsmiðju Renault er hann hampaði sinni fyrstu viðurkenningu.
Nýr Clio er verulega breyttur frá fyrri kynslóð og kunnu gestir bílasýningarinnar í Genf við umbyltingu bílsins. Kusu þeir hann besta framleiðslubílinn á sýningunni, svonefndum RTL – Auto Plus – Turbo Grand Prix.
Hlaut hann 56% atvæða en afgangurinn dreifðist á milli átta annarra nýrra framleiðslubíla sem frumsýndir voru í Genf.
Clio er íkon borgarbíla Renault en fyrsta kynslóð hans kom á götuna árið 1990. Í millitíðinni - á tæpum 29 árum - hefur hann selst í 15 milljónum eintaka um jarðir allar. Hefur enginn annar franskur fólksbíll selst jafn vel. Sá nýi er af fimmtu kynslóð Clio.