Renault íhugar kaup á Fiat Chrysler

Franski bílsmiðurinn Renault íhugar nú að gera tilboð í bandarískan keppinaut, Fiat-Chrysler samsteypuna. Þá freistar Renault þess að koma viðræðum um samruna við Nissan aftur í kring en markmiðið með þessu öllu er að skapa nýja stóra bílasamsteypu.

Þetta kemur fram í franska blaðinu Le Figaro í dag en það byggir frétt sína á breska viðskiptablaðinu Financial Times, sem einnig fjallar um áform þessi í dag.

Hugmyndin er að endurræsa samrunaviðræður Renault og Nissan sem síðan myndu hvort um sig bjóða í Fiat Chrysler Automobiles (FCA). Þáverandi forstjóri Renault, Carlos Ghosn, þreifaði fyrir sér um samruna árið 2015, en franska stjórnin, sem hluthafi í Renault, stöðvaði þau áform hans.

Financial Times segir að með nýrri stjórn samstarfsvettvangs Renault og Nissan undir forystu Jean-Dominique Senard forstjóra Renault, ríki mikil bjartsýni á að af samruna þessara tveggja bílsmiða verði.

Með sameiningu Renault, Nissan, Fiat og Chrysler í eitt samstarfsfyrirtæki stæðu fyrirtækin betur að vígi á heimsmarkaði í keppni við bílrisa sem Volkswagen og Toyota.

Fiat Chrysler hefur verið að leita fyrir sér um samstarfsfyrirtæki eða samruna. Hefur forstjórinn John Elkann meðal annars fundað um þau mál við frönsku bílasamsteypuna  PSA Group.

Bæði Renault og Nissan hafa varist fregna af þessum áformum um samruna við FCA og talsmaður Fiat Chrysler hefur ekki viljað tjá sig um þau.

mbl.is