Tesla í smíði sjálfekinna bíla

Elon Musk kynnir nýjan bíl, Tesla Model Y, á fundinum …
Elon Musk kynnir nýjan bíl, Tesla Model Y, á fundinum með fjárfestunum í Kaliforníu. AFP

Köllun Tesla var að smíða rafbíl sem þorri almennings réði við að kaupa. Nú hefur forstjórinn Elon Musk vent kvæði sínu alveg í kross og segir ekkert vit í bílkaupum, ef sýn hans um framtíð sjálfaksturs gengur eftir.

Musk boðar samtvinnun sjálfaksturstækni og deilibílaþjónustu þann veg að hann segir það klikkun af hálfu neytenda að kaupa aðra bíla en Tesla.

Þegar kemur fram á mitt næsta ár verður ein milljón sjálfekinna Tesla á götunum. Sagði Tusk á fundi með fjárfestum í fyrradag, að neytendur myndu geta sett bíla sína í deilinet bíla, robotaxis, sem farið gætu um án þess að nokkur sála væri um borð.

Jafnvel þótt Tusk eigi hlut að máli þykir tímalína þessi einstaklega metnaðarfull.  Waymo, dótturfélag Google sem álitið er í fararbroddi í sjálfaksturstækni, hefur forðast að senda bíla sína í umferðina án öryggisökumanna um borð.

Þótt Tesla glími við ört vaxandi efasemdir um eftirspurn eftir rafbílum sínum staðhæfir Tusk að viðskiptavinir hans muni uppskera verulegan fjárhagslegan ávinning þegar sjálfakandi robotaxar koma á götuna.

„Grundvallar skilaboðin sem neytendur ættu að gaumgæfa nú eru þau, að það er fjárhagsleg sturlun að kaupa eitthvað annað en Tesla,“ sagði Tusk við fjárfestana í fyrradag í bækistöðvum fyrirtækisins í Palo Alto í Kaliforníu. „Að þremur árum liðnum yrði annað eins og að eiga hest,“ bætti hann við.

Á fundinum, sem um hundrað fjárfestar sóttu,  sýndi Musk tölvubúnað sem gerir „alsjálfakstur“ mögulegan. Hann sagði nýju skraddarasniðnu tölvuflöguna væri mikilvægur áfangi í þróun sjálfakstursbíla.

Gestir á bílasýningu sem nú stendur yfir í Sjanghæ í …
Gestir á bílasýningu sem nú stendur yfir í Sjanghæ í Kína, við Tesla Model 3 á sýningarbás Tesla. AFP
mbl.is