Volkswagen (VW) atvinnubílar hafa verið að sækja í sig veðrið síðustu misseri og eru efstir í sölu meðal sendibíla í aprílmánuði, að sögn Heklu, umboðs fyrir Volkswagen á Íslandi.
„Fram undan eru miklar nýjungar og eins og hjá Volkswagen fólksbílum er veðjað á rafmagnsbílana. Volkswagen samsteypan hefur gefið út að á næstu árum mun rafmagnsbílum fjölga gríðarlega og í fólksbílunum er verið að hefja kynningu á nýju ID rafbílalínunni,“ segir í tilkynningu.
Þar segir, að þegar litið sé á sölutölur það sem af er aprílmánaðar eru Volkswagen atvinnubílar í efsta sæti í sölu sendibíla með ríflega 28% markaðshlutdeild. Hjá Volkswagen eru það sendibílarnir Crafter og Transporter sem eru söluhæstir í mánuðinum en fyrsti rafmagnaði sendibíllinn, e-Crafter, er á leiðinni til landsins.
Hefðbundið vörurými er að finna í e-Crafter, eða allt að 10,7 rúmmetrar. Hæð í rýminu er 186,1 sentímetrar og má þakka það fyrirferðarlitlum rafhlöðubúnaði sem komið er fyrir í undirvagninum.
Næsta nýjung hjá Volkswagen atvinnubílum verður e-Caddy sem kemur til Íslands á næstu mánuðum og með haustinu kemur rafmagnaður e-Transporter, að sögn Heklu.
„Þegar litið er á árið í heild sinni eru Volkswagen atvinnubílar með rétt rúmlega 20% markaðshlutdeild sendibifreiða en næsta merki fylgir á eftir með rúm 18%. Hjá Volkswagen trónir þar Caddy á toppnum sem hefur síðustu ár verið einn af vinsælustu sendibílum landsins. Nú nýlega komu aftur til landsins metanknúnir Caddy sendibílar sem hafa verið afar vinsælir og eftirspurnin mikil en 90% af nýskráðum metanknúnum bílum árið 2019 eru frá Volkswagen; hvort tveggja fólksbílar og sendibílar“ segir í tilkynningunni áðurnefndu.