Rafstrætó með pláss fyrir 250 farþega

Lengsti bíll heims er rafdrifinn strætisvagn. Hann er liðsskiptur á …
Lengsti bíll heims er rafdrifinn strætisvagn. Hann er liðsskiptur á tveimmur stöðum til að geta athafnað sig í þéttbýllisumferð.

Það er líklega við hæfi að lengsti strætisvagn heims sé kínverskur. Þar í landi kallar manngrúinn á afkastamikil samgöngutæki. Nú er hins vegar útlit fyrir að nýr „stórvagn“ birtist að ráði í evrópskum borgum á næstu misserum.

K8S er tveggja hæða rúta sem hleypt var af stokkum árið 2014. Hún er rafdrifin og hefur ekkert farartæki fyrirfundist stærra með þess konar aflrás. Til marks um ágæti K8S-vagnsins hefur hann verið í notkun í London frá 2015.

En nú er verið að velta K8S af stalli. Ekki af öðrum keppinauti, heldur bíl úr sömu smiðju. Þar er verið að tala um 27 metra langan strætisvagn sem nýkominn er á göturnar í heimaborg hans, Shenzhen. Þar er komin nýr „heimsins stærsti“ bíll.

Bíllinn er liðskiptur, öðru vísi gæti hann ekki athafnað sig i vegakerfinu. Eru liðirnir tveir og því eins og um samsettan strætó úr þremur bílum að ræða. Og afköstin eru góð því farartæki þetta getur flutt allt að 250 manns í einu.

Í rútunni er nýþróað kerfi til að stýra drifinu. Getur ökumaður með því valið að brúka tveggja hjóla drif eða fjögurra, ef aðstæður krefjast.

Drægi strætisvagnsins stóra er allt að 300 kílómetrar á rafhleðslunni. Hámarkshraði hans er 70 km/klst.

Kínverski framleiðandinn, BYD, segir að strætisvagninn stóri sé smíðaður eftir alþjóðastaðli um strætisvagna (BRT) en lengdin er þó undantekning þar frá. Í Evrópu verður að fá sérstaka undanþágu áður en svo stór bíll fær að aka í umferðinni þar. Samkvæmt forskrift Evrópusambandsins (ESB) er hámarkslengd hópflutningabíla 18,75 metrar. Sú er einmitt heildarlengd fyrrnefnds K8S-strætós.

Strætisvagnar BYD eru algengir í kínverskum borgum. Til dæmis í 13 milljóna íbúa borginni Xi'an í norðvesturhluta Kína. Keypti hún 1.100 rafstrætóa 2016 og 1.900 til viðbótar í fyrra. Senn tekur hún við 200 tveggja hæða K8S-vögnum. Í Xi'an er að finna langstærsta rafdrifna bílsamgöngukerfi heims.

mbl.is