Forsala á nýjum rafbíl Volkswagen, Volkswagen ID., hófst hjá Heklu núna klukkan 11, eða á sama tíma og hvarvetna annars staðar í Evrópu. Fer salan fram á heimasíðu VW á netinu.
Þar verður hægt að tryggja sér eitt af fyrstu eintökum bílsins sem verður í sérstakri viðhafnarútgáfu sem kallast „First Edition“.
Í september verður bíllinn svo heimsfrumsýndur á bílasýningunni í Frankfurt. Þar verður endanlegt útlit ásamt verði kynnt en gert er ráð fyrir að verðið verði frá 30.000 evrum, sem er svipað og greiða verður fyrir sjálfskiptan Golf.
Volkswagen ID. er hreinn rafbíll byggður á nýjum MEB undirvagni og verður með frá 330 til 550 kílómetra (WLTP) drægi. Hann er fyrstur í röð rafbíla frá VW sem hannaðir eru frá grunni sem rafmagnaðir fólksbílar.
Með því að byrja með tómt blað og engar fyrirfram mótaðar skoðanir hafa hönnuðir Volkswagen gjörbreytt hönnun bílsins sem skilar sér í mun stærra innanrými en hingað til hefur þekkst. Nafnið á bílnum verður kynnt á frumsýningunni en að ytra máli er hann á stærð við Golf en eins og Passat að innanmáli.
Aðrir bílar í rafbílalínu Volkswagen fylgja hratt á eftir en síðar á árinu hefst forsala á ID. Crozz sem er fyrsti rafmagnaði jeppi Volkswagen og verður á stærð við Tiguan. Á næsta ári hefst sala á ID. Buzz og þá fylgir ID. Vizzion eftir og verður til sölu árið 2023 samkvæmt upplýsingum frá Volkswagen.