Sala hafin á Mercedes-Benz EQC

Sportjeppinn Mercedes-Benz EQC.
Sportjeppinn Mercedes-Benz EQC.

EQC, fyrsti hreini rafbíllinn í nýrri línu Mercedes-Benz, er nú kominn í sölu á Íslandi. Fyrstu bílar koma til landsins í ágúst en Ísland er er meðal fyrstu landa í heiminum sem fær þennan eftirsótta bíl.

Nú er hægt að panta bílinn og samhliða því hefur Bílaumboðið Askja birt verðlista þar sem fram kemur að bíllinn kostar frá kr. 9.390.000.

EQC er fjórhjóladrifinn sportjeppi í sömu stærð og GLC. Uppgefið drægi hans 374-417 km skv. WLTP staðli en hún getur verið mismunandi eftir búnaði bílsins. Bíllinn er með tveimur rafmótorum sem eru samtals 300 kW en það skilar bílnum 408 hestöflum og 760 Nm í togi. Dráttargeta sportjeppans er allt að 1,800 kg. EQC fer með krafta í kögglum og fer úr kyrrstöðu í hundraðið á aðeins 5,1 sekúndu, samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda.

„Bíllinn er framúrstefnulegur og fallegur í hönnun. Bíllinn er mjög tæknivæddur og í innanrými bílsins er vandað til verka hvað varðar búnað, þægindi og efnisval. Þá er hann búinn hinu marglofaða MBUX margmiðlunarkerfi og stóru, stafrænu mælaborði. EQC er með nýjustu aksturs- og öryggiskerfi frá Mercedes-Benz. Þrjár útfærslur verða í boði af EQC með mismunandi búnaði og munu þær kosta frá 9.390.000 til 11.590.000 kr. með allt að 5 ábyrgð,“ segir í tilkynningu.

Bílaumboðið Askja býður til EQ kynningarkvölds eftir viku, miðvikudaginn 15. maí. Þar verður farið yfir framtíð Mercedes-Benz rafbíla með sérstaka áherslu á EQC. Auk þess sem sérfræðingar frá Orku Náttúrunnar og Hlaða.is halda stutt erindi um rafvæðingu bílaflotans og hleðslumöguleika.

Samhliða því að sala sé nú hafin á EQC á Íslandi hefur Mercedes-Benz gefið út smáforrit fyrir íslenskan markað sem ber heitið „EQ Ready“. Smáforritið gefur notendum tækifæri til að fylgjast með eigin keyrslu og útfrá því meta hvort rafbíll hentar til daglegrar notkunar. Smáforritið gefur upplýsingar um orkunotkun, helstu hleðslustöðvar í nágrenninu og ýmsar aðrar gagnlegar upplýsingar sem nýtast þeim sem enn eru efins um noktunarmöguleika rafbíls.

mbl.is