Nýr og þróttmeiri Juke

Hinn nýi Nissan Juke verður kynntur hjá BL í janúar …
Hinn nýi Nissan Juke verður kynntur hjá BL í janúar næstkomandi.

Ný og breytt kynslóð sportjepplingsins Nissan Juke var kynnt í gær, 3. september, en bíllinn fer í nóvember á markaði fimm helstu stórborga Evrópu, þar sem búa um ein milljón eigenda að Juke. Ný kynslóð Juke er væntanleg til BL í janúar næstkomandi.

„Nýr Juke hefur tekið spennandi og þróttmiklum útlitsbreytingum þar sem skerpt hefur verið betur á vinsælum megineinkennum ytri ásýndar jepplingsins, m.a. með aukinni áherslu á V-laga framgrillið og nýja hönnun efri framljósa sem eru eins konar framlenging á V-laga grillinu auk þess sem hringlaga og einkennandi aðalluktir Juke hafa fengið spennandi uppfærslu með þriggja arma díóðulýsingu frá miðju ljóssins og til ytri brúna luktarinnar. Þá má geta þess að val sportlegar 19 tommu álfelgur auka enn á þróttmikið útlit nýja bílsins,“ að því er segir í tilkynningu vegna frumsýningar bílsins, sem er stærri en forverinn og endurhannað farþegarýmið því meira en áður.

Þannig er Juke nú rúmir 4,2 metrar að lengd, breiddin 1,8 m og hæðin tæpir 1,6 metrar. Fótarými farþega í aftursætum er um sex cm meira en áður, höfuðpláss er meira og sætisstaða ökumanns og aðgengi hans að stjórnbúnaði hefur einnig verið bætt til að auka þægindi og öryggi í akstri. Þá hefur farangursrýmið aftur í verið aukið um 20% eða í 422 lítra. Einnig hefur geymslupláss fyrir ýmsa smáhluti verið aukið. Þrátt fyrir stærri og rúmbetri Juke er nýi jepplingurinn 23 kg léttari en núverandi gerð og á stífari undirvagni sem eykur stöðugleika og öryggi í akstri og meiri akstursánægju.

Ný vél

Juke verður til að byrja með boðinn með þriggja strokka eins lítra 117 hestafla bensínvél með forþjöppu. Hægt verður að velja um sex gíra beinskiptingu eða sjö gíra sjálfskiptingu með tvöfaldri kúplingu, sem hvor um sig auka vélarafköst, eldsneytisnýtingu og mýkt í akstri. Við sjálfskiptinguna eru þrjár akstursstillingar í boði, Eco, Standard og Sport.

Í tilkynningu segir að nýr Juke sé búinn margvíslegri nýrri tækni á sviði öryggis og þæginda. Þar á meðal aðstoðarbúnaðinum Nissan ProPILOT með aðstoðarstýringu, eftirliti með blindsvæðum og sjálfvirkri hröðun sem hægir eða eykur hraðann í samræmi við umferðarþunga og stöðvar bílinn ef þörf krefur. Meðal staðalbúnaðar er að öryggiskerfið ber kennsl á gangandi og hjólandi vegfarendur og virkjar neyðarhemlun Juke gerist þess þörf. Juke ber einnig kennsl á hraðamerkingar og veglínur auk þess sem hann fylgist með aðvífandi umferð aftan við bílinn og heldur honum á sinni akrein sé annar bíll á leið fram úr.

Gott afþreyingarkerfi

Juke er einnig búinn afþreyingarkerfinu Nissan Connect infotainment sem innifelur m.a. Bose Personal Plus hljóðkerfi sem er samhæft Apple CarPlay og Android Auto og getur varpað stjórn farsímans á 8 tommu miðlægan bílskjáinn. Þá geta eigendur Juke einnig nálgast símaapp til að fylgjast með bílnum, t.d. því hvort hann sé læstur og geta læst eða aflæst bílnum með símanum gerist þess þörf. Þá verður einnig hægt að athuga loftþrýstinginn í dekkjunum og stöðu mótorolíunnar í gegnum símaappið svo fátt eitt sé nefnt af nýjungum þeim sem fáanlegar verða í nýjustu kynslóð Juke.

Vinnurými bílstjóra hins nýja Nissan Juke.
Vinnurými bílstjóra hins nýja Nissan Juke.
mbl.is