Meira en 30.000 ID.3 pantaðir

Eftir að hafa sýnt hann í boxi í vor er …
Eftir að hafa sýnt hann í boxi í vor er loksins komið að alvöru frumsýningu ID.3.

Undirbúningurinn er núna á síðustu metrunum fyrir heimsfrumsýningu rafmagnsbílsins ID.3 á alþjóðlegu bílasýningunni í Frankfurt. Volkswagen gaf bílablaðamönnum reyndar smjörþef af ID.3 snemma í vor og sýndi frumgerð bifreiðarinnar inni í boxi og í felulitum, en á mánudag ætlar þýski bílaframleiðandinn að halda heljarinnar viðburð til að sýna þennan efnilega rafbíl fullskapaðan.

Áhugi almennings fer ekki milli mála því þegar hafa meira en 30.000 ID.3-bílar verið forpantaðir. Eru það einkum kaupendur í Þýskalandi, Noregi, Hollandi, Bretlandi og Svíþjóð sem hafa verið meira en til í að reiða fram u.þ.b. þúsund evrur til að tryggja sér eintak.

Fyrsti umgangurinn af ID.3, svokölluð „1st edition“-útgáfa, verður sérlega vel útbúinn með 58 kWst rafhlöðu sem veitir allt að 420 km drægi samkvæmt WLTP-staðlinum. Á Íslandi mun bíllinn kosta frá 4,5 milljónum króna og fengust þær upplýsingar hjá Heklu að þar sem íslenska Volkswagen-umboðið fékk hlutfallslega stóran kvóta af fyrstu-útgáfu-bílunum væru ennþá nokkur forpöntunarpláss laus. Verða forpöntuðu bílarnir afhentir næsta vor.

ID.3 er fyrsti bíllinn í nýrri og breiðri línu bifreiða hjá Volkswagen sem byggist á rafmögnuðum undirvagni sem hefur verið sérhannaður frá grunni fyrir rafbíla. Auðvelt er að smíða bíla af öllum stærðum og gerðum ofan á undirvagninn, en þá tryggir hönnun hans líka að pláss fyrir farþega og farangur er með mesta móti. Er það mat þeirra hjá VW að ID.3 verði jafnmikill tímamótabíll og Bjallan og Golfinn voru á sínum tíma.

Gaman verður að sjá ID.3 í öðrum litum en rauðu …
Gaman verður að sjá ID.3 í öðrum litum en rauðu og bláu felulitunum sem notaðir hafa verið í kynningarefni til þessa.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Loka