ID.3 birtist fullskapaður

Hönnun ID.3 þykir hafa heppnast vel. Hann er hæfilega framúrstefnulegur …
Hönnun ID.3 þykir hafa heppnast vel. Hann er hæfilega framúrstefnulegur og hæfilega "venjulegur" í útliti. Ljósmynd / Rúnar Hreinsson

Volkswagen hefur heldur betur tekist að magna upp spennuna í aðdraganda komu rafbílsins ID.3. Eftir að hafa sýnt bílinn í felulitum í vor var hann loksins sýndur í sinni endanlegu mynd í gær, kvöldið fyrir opnun Bílasýningarinnar í Frankfurt.

Bílablað Morgunblaðsins var á staðnum, enda ekki á hverjum degi sem VW kynnir tímamótabíl, og mátti heyra á gestum að útlit og eiginleikar ID.3 féllu vel í kramið.

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum er greinilegur Volkswagen-svipur á ID.3, og gengið hæfilega langt í að gera útlitið nútímalegt, án þess þó að bíllinn stingi mjög í stúf kominn út á götu. 

Í megindráttum ríkir úthugsuð naumhyggja bæði að innan og utan, en ID.3 er þó skreyttur með mynstri sem á að minna á býflugnabú bæði á framstuðaranum og aftan við afturhurðirnar. Á mynstrið að vísa til náttúrunnar, og undirstrika að ID.3. er umhverfisvænn bíll, en Volkswagen lofar því að bílarnir verði afhentir kaupendum kolefnisjafnaðir, þökk sé skógræktarverkefnum sem framleiðandinn fjármagnar víða um heim.

Auk þess að vera kolefnisjafnaður og ganga alfarið fyrir rafmagni …
Auk þess að vera kolefnisjafnaður og ganga alfarið fyrir rafmagni verður ID.3 búinn alls kyns tækni sem gerir aksturinn auðveldari og skemmtilegri. Frá viðburðinum í Frankfurt í gærkvöld. Ljósmynd / Rúnar Hreinsson

Mælaborðið er smátt en skjárinn á leiðsögutölvunni er nokkuð voldugur, og lítið af tökkum og stöngum í farþegarými, svo að meira pláss er fyrir smátöskur, drykki og þvíumlíkt. 

Grunnútgáfa ID.3 verður með 45 kWst rafhlöðu og 330 km drægi skv. WLTP-staðli, en einnig hægt að fá 58 og 77 kWst rafhlöðu sem dugar í allt að 550 km akstur. Er það rétt rúmlega nóg til að aka frá Reykjavík að Djúpavogi í einum rykk, eða á Blönduós og til baka, án þess að þurfa að stinga í samband.

Hjá Heklu fengust þær upplýsingar að fjöldi Íslendinga hefði pantað sér fyrstu útgáfu af ID.3 og verða bílarnir afhentir um mitt næsta ár.

Eins og sést er innanrýmið stílhreint og snyrtilegt. Smár skjárinn …
Eins og sést er innanrýmið stílhreint og snyrtilegt. Smár skjárinn á bakvið stýrið sýnir allt sem sýna þarf. Ljósmynd / Rúnar Hreinsson
Að utan er ID.3 álíka stór og Golf, en þar …
Að utan er ID.3 álíka stór og Golf, en þar sem ekki er bensín- eða díselvél undir húddinu var hægt að stækka farþega- og farangursrýmið. Ljósmynd / Rúnar Hreinsson
mbl.is